*

sunnudagur, 24. febrúar 2019
Innlent 9. apríl 2008 10:26

Fyllerí og skortsala á 101 Hótel

Ritstjórn

„Á nöturlegu janúarkvöldi kom hópur alþjóðlegra vogunarsjóðsstjóra saman barnum á 101 Hótel í miðborg Reykjavíkur til að fá sér drykk fyrir kvöldmatinn. Þeir voru fluttir þangað af Bear Stearns bankanum sem bjargað var frá gjaldþroti tveimur mánuðum síðar. Bankinn hafði skipulagt ferðina til að ræða um furðulegt ástand íslensks efnahagslífs.“

Þannig hefst frásögn Financial Times af ferð alþjóðlegra vogunarsjóðsstjóra en blaðið segir að það sem hafi gerst á þessum fundi vera orðið goðsagnarkennt meðal fjármálamanna.

„Þegar ég kom inn á barinn kom stjórnandi eins sjóðsins til mín. Hann upplýsti mig um það að allir sem þarna voru, nema hann sjálfur auðvitað væru að skortselja í Íslandi,“ hefur blaðið eftir heimildarmanni sem það segir vera yfirmann hjá stórum íslenskum banka. Sagði hann að sjóðstjórinn hefði líkt hagnaðarmöguleikunum við „endurkomu Krists.“

 „Eftir því sem leið á kvöldið [...] og meira var drukkið urðu samræðurnar og spurningarnar fjandsamlegri og hafðar voru uppi yfirlýsingar yfirlýsingar um skortstöðu,“ hefur blaðið eftir íslenska bankamanninum.

Það sem byrjaði sem „fyllerí“ hefur nú orsakað það að Fjármálaeftirlitið (FME) hefur hafið rannsókn á því hvort vogunarsjóðir hafi gert atlögu að krónunni, íslenska bankakerfinu og hlutabréfamarkaðinum.

Financial Times hefur eftir Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra FME að verið sé að rannsaka hvort vissir aðilar hafi kerfisbundið komið af stað neikvæðum og röngum orðrómi um íslenska banka og fjármálalíf í því skyni að hagnast.

Hér er hægt að nálgast grein Financial Times.