Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,48% í 3,4 milljarða viðskiptum dagsins og hefur hún nú farið niður í 1.694,19 stig. Aðalvísitala Skuldabréfa hefur hækkað um 0,02% í 5,4 milljarða viðskiptum og hefur hún náð 1.343,91 stigum.

Gengi bréfa Össurar lækkaði mest, eða um 3,72% í mjög litlum viðskiptum þó en mest viðskipti voru hins vegar með bréf N1 sem lækkuðu um 2,18% í 582 millóna viðskiptum.

Næst mest viðskipti, eða fyrir 564 milljónir, voru með bréf Icelandair Group sem stóðu í stað, í 16,75 krónum hvert bréf. Marel lækkaði svo um 1,00% í 517 milljóna viðskiptum og hafa þau náð niður í 112 krónur hvert bréf. Hagar hækkuðu hins vegar mest í kauphöllinni í dag eða um 2,09% í 283 milljóna viðskiptum og standa bréfin nú í 34,25 krónum.

Næst mest hækkun var svo á gengi bréfa Skeljungs sem hækkuðu um 0,84% í 367 milljóna viðskiptum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag sagði félagið upp 29 manns og tilkynnti um að Skeljungsvörumerkinu yrði lagt. Lokagengi bréfanna var 7,20 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,4% í dag í 3,4 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði lítillega í dag í 4,3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 0,1 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 4 milljarða viðskiptum.