Hagnaður varð á rekstri heildverslunarinnar Nathan og Olsen á árinu 2015 að fjárhæð 287,7 milljónir króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Árið 2014 nam hagnaður félagsins 180,5 milljónum króna. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 200 milljónir króna til hluthafa á árinu 2016 vegna rekstrarársins 2015.

Velta félagsins nam 4.512,8 milljónum króna í fyrra og jókst um 134 milljónir króna milli ára. Framlegð af vörusölu jókst um rúmar hundrað milljónir króna og nam 1.253,8 milljónum króna í fyrra.

Eignir félagsins voru 1.130,6 milljónir króna um síðustu áramót og þar af voru fastafjármunir 92,8 milljónir og viðskiptavild 104,6 milljónir. Eigið fé jókst verulega milli ára; var 192,2 milljónir í árslok 2014, en var um síðustu áramót 334,8 milljónir króna. Skuldir námu 795,7 milljónum króna og voru þær nær allar skammtímaskuldir.

Hlutafé félagsins nam í ársbyrjun 5,0 milljónum króna, en hækkaði um 3,5 milljónir króna á árinu vegna samruna við Gott fæði ehf. Hlutafé í árslok er því 8,5 milljónir króna og skiptist það á tvo hluthafa, eins og í ársbyrjun. 1912 ehf. átti 99,9% eignarhlut í félaginu í árslok.