Raunvextir á Íslandi eru hæstir meðal ríkja OECD samkvæmt nýrri greiningu efnahagssviðs SA. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðsins segir að aðhald peningastefnunnar sé mjög strangt á Íslandi.

„Þetta er í raun bara mælikvarði á aðhald peningastefnunnar. Aðhald peningastefnunnar er að aukast mjög mikið núna. Ef við rýnum í sögulegt gildi verðbólgunnar þá er hún mjög lág. Verðbólgan hefur reynst lægri en Seðlabankinn spáði fyrir um, þannig að aðhaldið hefur verið meira. Það er mjög strangt aðhald á Íslandi, við erum komin í ríflega 4% raunvaxta aðhald,“ segir Ásdís.

„Það er í raun vegna þess að þrátt fyrir að verðbólgan nú sé undir verðbólgumarkmiði þá hefur Seðlabankinn séð blikur á lofti um tíma. Þessi verðbólga sem hann hefur verið að spá hefur þó ekki enn komið fram. Laun á Íslandi hafa hækkað skarpt og langt umfram það sem gengur og gerist í öðrum viðskiptalöndum, en það ógnar verðstöðugleika. Undir eðlilegum kringumstæðum þá ætti það að ýta undir verðbólgu. Hins vegar hefur krónan verið að styrkjast og viðskiptakjör hafa verið hagstæð, sem leiðir til lægri verðbólgu.“

Ásdís segir að Seðlabankinn sé að reyna að slá á eftirspurn í hagkerfinu með háu raunvaxtastigi. „Hann er að reyna að halda aftur að aukinni þenslu sem hann sér fram á veginn. Hins vegar getur þetta líka leitt til þess að hagkerfið ofkælist, en það eru ekki vísbendingar þess efnis enn sem komið er. Við erum að sjá góðan gang í hagkerfinu og verðbólgan er ekki farin af stað.“

Ásdís segir að það séu vísbendingar um að fyrirtæki séu að hagræða til að velta ekki hækkunum í verðlagið. „Ef við horfum á þróunina í innlendum verðbólguliðum þá eru vísbendingar um að fyrirtæki hafa verið a hagræða í stað þess að velta launahækkunum beint út í verðlagið til neytenda.“

Vill hleypa lífeyrissjóðum út

Ásdís gagnrýnir að Seðlabankinn hafi leyft krónunni að styrkjast jafn mikið og hún hafi gert á sama tíma og höft séu á útflæði á fjármagni. „Seðlabankinn hefur vissulega beitt inngripum til að koma í veg fyrir frekari styrkingu. En það sem ég hefði vilja sjá hann vera ákveðnari í því að hleypa lífeyrissjóðunum út og leyfa þeim að fjárfesta erlendis. Við erum ennþá með um 200 milljarða sem eru fastir innan hafta. Ég hefði viljað Seðlabankann nýta tækifærið og hleypa þeim út í stað þess að leyfa krónunni að styrkjast.“