Stjórn Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) hefur hafnað öllum framkomnum tilboðum í Hildu, dótturfélag ESÍ. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Hilda heldur utan um milljarða eignasafn sem komst í eigu Seðlabankans í kjölfar bankahrunsins, þ. á m. eignir Dróma, eignasafn Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans.

ESÍ auglýsti Hildu til sölu þann 20. ágúst sl. en þá átti að selja félagið í einu lagi og að hlutafé þess væri að nafnvirði einn milljarður króna. Að sögn Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóri ESÍ og stjórnarformanns Hildu þá voru tilboðin, að mati ESÍ, ekki ásættanleg þegar þau voru borin saman við þær væntingar sem þeir höfðu. Núna er gert ráð fyrir því að eignirnar í félaginu verði boðnar fjárfestum til sölu, en engar ákvarðanir hafa verið teknar.