*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 24. febrúar 2018 14:01

Höftin hækki vexti og hindri samkeppni

Innflæðishöft Seðlabankans valdi hærri vöxtum og draga úr samkeppni við bankana að sögn Ásgeirs Jónssonar.

Ingvar Haraldsson
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Innflæðishöft Seðlabankans valda því að fyrirtæki þurfi að greiða hærri vexti og hindri samkeppni við bankana. Þetta segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. „Ef þessi höft yrðu afnumin held ég að við myndum sjá vexti lækka tiltölulega hratt,“ segir Ásgeir. Innflæðishöftin voru innleidd í júní árið 2016 og fela í sér að 40% af fjárfestingum erlendra aðila í skráðum skuldabréfum og innlánum í krónum eru bundin á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabanka Íslands í eitt ár. Með innflæðishöftunum vill Seðlabankinn takmarka svokölluð vaxtamunaviðskipti þar sem aðilar reyna að hagnast á vaxtamun milli Íslands og annarra ríkja.

Slíkir fjárfestar geti horfið fljótt úr landi komi upp óvænt áföll, með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum. Með bindiskyldunni dregur einnig úr áhuga á skráð- um skuldabréfum og þar með úr líkunum á að vaxtastig lækki úr takti við stýrivaxtabreytingar Seðlabankans. „Ég held að þessi innflæðishöft hafi alveg gríðarlega mikil áhrif á fyrirtækjaálagið á Íslandi,“ segir Ásgeir. 

„Það liggur fyrir að það gæti verið töluverður áhugi hjá fyrirtækjum sem eru tiltölulega stór eins og fasteignafélögum og grónum fyrirtækjum með góða eiginfjárstöðu. Svoleiðis bréf hafa verið mjög mikið keypt erlendis,” segir Ásgeir.

Veiti bönkunum aukna samkeppni

„Ég bjóst við því eftir hrunið myndum við sjá mjög líflegan markað með fyrirtækjaskuldabréf og að bankarnir myndu fá harðari samkeppni þar. Það eru eiginlega bara lífeyrissjóðirnir sem eru á þessum markaði,“ segir Ásgeir. Ásgeir bendir á að aukin samkeppni erlendra aðila við bankanna gætu haft töluverð áhrif á íslenska banka sem eigi mikið undir lánum til fyrirtækja. Hlutfall lánum til fyrirtækja af heildarútlánum sé mun hærra en víða erlendis. Einna helst vegna þess hve há markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða sé í íbúðalánum til einstaklinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.