Námsstyrkjakerfi íslenska ríkisins verður breytt þannig að námsmenn fá 65 þúsund króna beinan styrk á mánuði samkvæmt frumvarpi menntamálaráðherra um breytingar á lögum um LÍN sem lagt verður fyrir Alþingi eftir helgi. Auk styrksins munu námsmenn áfram geta fengið námslán. Nemendur munu fá fulla framfærslu í níu mánuði í stað 90% eins og nú er, og verður framfærsla næsta skólaárs tæpar 188 þúsund krónur á mánuði.

Námsmenn munu geta fengið beinan styrk í alls 45 mánuði, eða fimm hefðbundin skólaár. Heildarstyrkurinn getur því numið allt að 2.925.000 krónum miðað við fulla námsframvindu og hámarkslán miðast við 15 milljónir á hvern námsmann. Heildaraðstoð getur því numið tæpum 18 milljónum króna, en yfir 99% nemenda falla undir það viðmið. Beini styrkurinn verður skattskyldur eins og aðrar tekjur.

Vextir hækka

Vextir lána munu hækka og verða fastir 2,5% vextir að viðbættu álagi til að mæta afföllum af lánum sem er áætlað um 0,5%. Hámarksendurgreiðslutími lána verður 40 ár, en uppgreiðslu lána skal ávallt vera lokið fyrir 67 ára aldur. Endurgreiðslur verða fastar mánaðarlegar afborganir líkt og á öllum hinum Norðurlöndunum, í stað tekjutengdra afborgana eins og nú er.

Hins vegar verður hægt að sækja um heimild til að fresta helmingi hvers gjalddaga námslána vegna kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði í allt að 60 mánuði til að auðvelda ungu fólki íbúðarkaup. Þá verður hægt að sækja um frestun á endurgreiðslu námslána vegna tímabundinna fjárhagsörðugleika í eitt ár í senn en að hámarki í 3 ár samanlagt.

Tekjutenging lána gæti minnkað

Í tilkynningu segir að um sé að ræða grundvallarbreytingu á námsaðstoð ríkisins sem miðar að því að koma á fót blönduðum styrktarsjóði að norrænni fyrirmynd. Markmið breytinga á lögum um LÍN sé að tryggja áfram jafnan aðgang að námi, skapa aukið réttlæti og gengsæi við úthlutun styrkja og skapa fyrirsjáanleika fyrir námsmenn og lánasjóðinn. Jafnframt sé markmiðið að tryggja námsmönnum fulla framfærslu og gefa þeim aukinn kost á að mennta sig án skuldbindingar.

Í núverandi kerfi skerðast námslán um sem samsvarar 45% tekna námsmanna umfram tiltekið frítekjumark, sem nú er 930.000 krónur á ári. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins gæti myndast svigrúm til þess að minnka þessa tekjutengingu námslána í ljósi þess að verið er að gera námslánakerfið sjálfbærara. Þó mun vera of snemmt að segja til um það ennþá.

Breytir stöðu sjóðsins

Viðskiptablaðið fjallaði nýlega ítarlega um fjárhagsstöðu LÍN. Þar kom fram að vegna fyrirkomulags lánveitinga væri aukin óvissa um tekjutengdar endurheimtur námslána. Bent var á að sjóðurinn stæði frammi fyrir aukinni áhættu vegna hægari vaxtar launa, hækkandi lánveitinga og hærri aldurs námsmanna.

Ætla má að þessi óvissa minnki verði frumvarp menntamálaráðherra að veruleika, enda verða afborganir nýrra lána ekki lengur tekjutengdar, hámark verður sett á lánveitingar og öllum greiðendum af nýjum lánum verður gert að ljúka endurgreiðslu lána fyrir 67 ára aldur.