*

miðvikudagur, 14. nóvember 2018
Erlent 18. febrúar 2016 12:55

Juncker segir samninga í sjónmáli

Samningar Evrópusambandsins við Bretland eru í sjónmáli að mati forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Ritstjórn

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB segir að samningar við Bretland um að halda ríkinu innan Evrópusambandsins séu í sjónmáli. Nú sé það á valdi almennings í Bretlandi að taka ákvörðun um áframhaldandi veru landsins innan sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Juncker sagði þetta á fundi í Brussel í dag. Hann sagði þó að ennþá ætti eftir að ræða margt og að ekki væri komið samkomulag um öll atriði. Eitt stærsta ágreiningsatriðið er vegna bótakerfis Bretlands til starfsmanna frá öðrum Evrópusambandslöndum, en ríki í Austur-Evrópu hafa barist hart gegn því að Bretland verði undanskilið reglum Evrópusambandsins um þau mál.

Ef samkomulag næst á fundinum þá mun David Cameron geta staðið við loforð sitt um að kosning um veru landsins í sambandinu verði haldið bráðlega, en 23. júní hefur verið nefnd sem möguleg dagsetning.

Stikkorð: ESB Bretland Brexit