*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 8. ágúst 2012 07:15

Gjaldþrota Jafet skuldar tæpan milljarð króna

Jafet Ólafsson seldi einkahlutafélagi sínu tvo bíla áður en hann varð gjaldþrota. Skiptastjóri vill láta meta virði bílanna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Kröfur í þrotabú Jafets Ólafssonar hljóða upp á 958 milljónir króna.
Haraldur Guðjónsson

Skiptastjóri þrotabús fjárfestisins Jafets Ólafssonar leitast við því að fá dómskvadda matsmenn til að meta verðmæti tveggja bifreiða sem Jafet seldi inn í einkahlutafélag sitt Veig ehf um það leyti sem hann var úrskurðaður gjaldþrota fyrir ári. Hildur Hermóðsdóttir, kona Jafets, er talin hafa keypt bifreiðarnar af einkahlutafélaginu. Skiptastjórinn telur að bifreiðarnar hafi verið seldar undir markaðsvirði og vill hann fá úr því skorið hvort sú hafi verið raunin. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku en þangað hefur skiptastjórinn stefnt Veigi og Hildi. Ekkert liggur fyrir um áætlað verðmæti bílanna.  

„Ég leita eftir því að fá viðskiptin gerð upp á milli Jafets og Veigs og gera í kjölfarið kröfu á Veig ef tilefni er til,“ segir skiptastjórinn Þorsteinn Einarsson. Hann bendir á að litlar upplýsingar liggi fyrir um viðskiptin. Ekki mun gerð krafa um riftun bílakaupanna. 

Fleiri mál í skoðun

Jafet var framkvæmdastjóri VBS fjárfestingarbanka í um áratug og átti tæpan 25% hlut í bankanum þar til haustið 2006 þegar hann seldi nær allan hlutinn og sagði starfi sínu lausu. Jafet var úrskurðaður gjaldþrota í júlí í fyrra og bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfur í þrotabú Jafets nema tæpum einum milljarði króna. Lýstar kröfur eru 958 milljónir króna. Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirra en skiptum búsins er ekki lokið. 

Skuldir Jafets eru að mestu til komnar vegna lána til hluta- og skuldabréfakaupa sem hann var persónulega skrifaður sjálfur fyrir. Landsbankinn er helsti kröfuhafinn. Jafet sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrir ári verið að semja við lánardrottna og bjartsýnn á að halda eigum sínum. 

Þorsteinn segir verið að skoða ýmsa aðra hluti tengda þrotabúi Jafets. Hann vildi ekki fara nánar út í þá sálma. 

Málið tengt bifreiðunum er hvorki það eina né fyrsta sem skiptastjórinn höfðar í tengslum við uppgjör á þrotabúi Jafets. Í maí greindi DV frá því að Þorsteinn hafi höfðað mál gegn Veigi vegna sölu Jafets á fjórum íbúðum á Akureyri inn í félagið í lok árs 2010. Blaðið hafði eftir skiptastjóranum þá að hann þurfi að láta meta hvort íbúðirnar hafi verið seldar undir raunvirði eður ei.  

Fjölskyldan á einkahlutafélagið

Jafet átti 70% hlut í félaginu Veigur út árið 2009 á móti Hildi. Félagið var skrifað fyrir 75% hlut í Aðalskoðun, stórum hlut í bókaútgáfunni Sölku og fleiri eignum. Samkvæmt uppgjöri 2009 nam verðmæti eigna tæpum 202 milljónum króna. Á móti námu skuldir rúmum 247 milljónum króna og var neikvætt um 45,3 milljónir króna. Félagið tapaði fjórum milljónum króna það árið. Af heildarskuldum nam skuld gagnvart eiganda Veigs tæpum 168 milljónum króna.

Veigur hagnaðist um 9,2 milljónir króna árið 2010. Eignir námu 231 milljón króna. Eigið fé var á sama tíma neikvætt um 36 milljónir. Heildarskuldir námu tæpum 268 milljónum króna. Þar af nam skuld við eiganda félagsins tæpum 205 milljónum króna. 

Jafet sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrir rúmu ári hafa selt Veig fyrir löngu en vildi ekki gefa nánar upp um eignarhaldið á því. 

Samkvæmt ársreikningi Veigs fyrir árið 2010, síðasta uppgjöri félagsins sem hefur verið skilað, var Hildur Hermóðsdóttir skráð fyrir 70% hlut í félaginu en börn Jafets fyrir því sem út af stóð. Eftir því sem næst verður komist er fjölskyldan enn skráður eigandi félagsins. 

Stikkorð: Jafet Ólafsson