L&H eignarhaldsfélag ehf., sem er í eigu Milestone samstæðunnar, hefur keypt 50% hlut í lyfjafyrirtækinu Zegin í Makadóníu. Zegin rekur heildsölu með lyf og smásölukeðju fyrir lyf og hefur til þessa verið í einkaeigu Mehandziski fjölskyldunnar. Fyrirtækið í heild er 10 stærsta fyrirtæki Makedóníu og stærsta apótekakeðja landsins, en félagið rekur 34 apótek. Heildarvelta fyrirtækisins er nálægt 30 milljónum evra eða 2,8 milljarðar króna.

Samhliða þessum kaupum vann Zegin útboð á 36 apótekum í eigu makadóníska ríkisins. Útboðið var gert í samvinnu við tvö önnur fyrirtæki í Makedóníu, Alkaloid og Farmakorp. Að sögn Hrundar Rudolfsdóttur, framkvæmdastjóra L&H eignarhaldsfélags, er kaupverð trúnaðarmál. Eins og áður segir rekur Zegin 34 apótek núna og er gert ráð fyrir að félagið fái um 10 apótek út úr uppboðinu auk þess að búið er að tryggja húsnæði fyrir opnun 19 nýrra apótek. Að þessu loknu mun félagið því reka yfir 60 apótek í Makedóníu.

L&H eignarhaldsfélag er í eigu Milestone samstæðunnar. Helstu eignir L&H eru Lyf og heilsa apótekakeðjan, DAC lyfjaheildsala og L&H Optik. Stefna fyrirtækisins er að auka fjárfestingar erlendis innan lyfja- og heilbrigðismála. Stjórnarformaður L&H er Karl Wernersson. Með þessari fjárfestingu rekur L&H nú um 100 apótek í fjórum löndum, en á síðasta ári fjárfesti fyrirtækið í apótekakeðjum í Rúmeníu og Króatíu.