„Það sem er óeðlilegt í stöðunni eru ekki þessir vextir okkar, heldur vextirnir úti.“ Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtali í þættinum Eyjan á ÍNN í gær.

„Þegar verið er að bjóða enga vexti eða beinlínis neikvæða leggur þú inn í banka og það er bara tekið af reikningnum þínum jafn óðum. Eða þú borgar ríkinu fyrir að fá að veita því lán. Það er það sem er óeðlilegt, og til lengdar hættulegt.“

Már sagði að mikilvægt væri að hafa í huga af hverju vaxtamunurinn við útlönd væri svo mikill sem raun ber vitni.

„Erlendis er verið að reyna eftir öllum mætti - og gengur ekkert allt of vel - að örva atvinnulífið og efnahagslífið; að fá atvinnustigið upp, atvinnuleysi niður, verðbólguna upp og launavöxtinn upp. Bíddu ... eru þetta aðstæðurnar á Íslandi? Launavöxtur er tveggja stafa tala! Við erum á allt öðrum stað.

Við vorum með 7,2% hagvöxt í fyrra. Það er spenna í kerfinu; þeir eru með slaka. Verðbólguvæntingarnar (á Íslandi) eru við markmiðið. Þeir eru að berjast við það að verðbólguvæntingarnar detti ekki of langt niður fyrir ... Menn telja þetta nauðsynlegt til þess að koma hagvextinum í gang. Þeir hafa hins vegar áhyggjur af þessu - af hliðarverkunum þessara mjög svo lágu vaxta - á sparnaðarstig, virkni fjármálakerfisins, stöðu tryggingafélaga, lífeyrissjóða o.s.frv.,“ sagði Már og vísaði til peningaprentunar Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Bandaríkjanna undanfarin ár.

„Vextirnir sem við erum með hér eru bara að endurspegla að staðan er önnur. Vextirnir eru hér háir af því að hagvöxturinn er mikill og við erum við fulla atvinnu. Við höfum þar til mjög nýlega verið með mjög mikla verðbólgusögu sem hékk inn í allri hugsun og öllu atferli og væntingum. Það er ekki fyrr en bara núna um mitt síðasta ár að verðbólguvæntingar fóru almennilega í markmið og hafa verið þar síðan. Og það sem er ánægjulegt að sjá er að þær eru að festast í sessi.“

Raunvextir munu lækka

Már sagði að til lengri tíma litið ættu raunvextir að lækka - að öðru óbreyttu.

„Ég held að það sé alveg ljóst að jafnvægisraunvextir - sem eru milli 2-3% - hafa lækkað af því að við erum að ná árangri með verðbólgumarkmiðið. Þeir eru líka að lækka vegna þess að sparnaðarstigið er miklu meira en það hefur verið. Þjóðhagslegur sparnaður er í sögulegum hæðum, sem er það sem skýrir viðskiptaafganginn. Svo er það þessi eignastaða. Yfir tíma mun þetta þrýsta raunvöxtunum hérna niður.

Það er t.d. ekkert náttúrulögmál að Sviss sé með lægri vexti heldur en Evrópa að meðaltali. Þeir hafa bara haft hærra sparnaðarstig í gegnum árin. Það sem ákvarðar vextina er framleiðniþróun og sparnaði.“

Bætti Már við að Seðlabankinn geti ekki stjórnað raunvöxtum til langs tíma, aðeins til skamms tíma.

„Seðlabankinn getur ekki ákveðið langtímaraunvexti. Hann getur haft áhrif á þá til skamms tíma, en þeir ákvarðast af undirliggjandi efnahagsaðstæðum. Það er lækkun þeirra sem skapar möguleika fyrir því að vextir geti eitthvað haldið áfram að þokast niður. En þeir verða hins vegar að vera fyrir ofan jafnvægi núna, af því við erum ekki í jafnvægi. Við erum með spennu í kerfinu. Og þá veltur þetta á því hvar menn telja að jafnvægisvextirnir séu. Sumir telja að þeir séu kannski 1%, 1,5% eða 2%. Segjum að þeir séu 2%. Þá kemur verðbólgumarkmiðið ofan á. Þá ertu kominn í 4,5%. Svo ertu í smá spennu og þá ertu fyrir ofan það. Þannig að vextirnir eru á engan hátt óeðlilegir."

Hagsmunaaðilar telja vextina of háa

Már vakti einnig athygli á því, að það væri útbreidd skoðun meðal sérfræðinga og þeirra sem ekki hafa hagsmuna að gæta að núverandi vaxtastig væri rétt eða jafnvel of lágt.

„Svo eru sumir sem telja að við séum með of lága vexti. Ég meina Lars Christensen ... (Björn Ingi grípur inn í: Það er nú ekki beinlínis útbreidd skoðun) ... Jú, það er mjög mikið af þeim sem hafa engra hagsmuna að gæta og þekkja til sem telja að vextirnir séu annað hvort í réttu lagi eða kannski of lágir. Ég tel þá ekki sjálfur vera of lága en auðvitað geta gerst hlutir," sagði Már. „Vextirnir eru bara stýritæki og við þurfum að bregðast við því sem gerist í hagkerfinu."