Hagnaður Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam um 14,3 milljónum Bandaríkjadala (rúml. 1,7 ma.kr.) eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við hagnað upp á 3,3 milljónir dala (tæpl. 400 m.kr.) á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn eykst því um tæpa 11 milljónir dala (rúml. 1,3 ma.kr.) samkvæmt uppgjörstilkynningu félagsins sem var birt var í dag.

Hagnaður félagsins á fyrri hluta ársins nemur því 1,1 milljón dala, samanborið við tap upp á 5,8 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIDTA) nam um 28,8 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi og jókst um 11,8 milljónir dala á milli ára. EBIDTA hagnaður félagsins á fyrri hluta ársins er því um 25,8 milljónir dala, samanborið við 15,4 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Heildartekjur félagsins jukust um 30,2 milljónir dala á milli ára (15%) á öðrum ársfjórðungi og námu um 234,4 milljónum dala. Nær alla tekjuaukninguna má rekja til aukinna tekna af farþegaflugi, sem jukust um 29,5 milljónir dala á milli ára eða 24%. Tekjur af flugvéla- og áhafnaleigu drógust saman  um 8,5 milljónir dala á milli ára á tímabilinu en aðrar rekstrartekjur jukust þó um 8,4 milljónir dala.

Á fyrir hluta ársins jukust tekjur félagsins um 57,3 milljónir dala og námu um 392 milljónum dala.

Mikil hækkun á eldsneytiskostnaði

Heildarkostnaður félagsins jókst þó um rúma 18,4 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi og nam á tímabilinu um 205,6 milljónum dala. Þar munar mestu um eldsneytiskostnað sem jókst um 10,3 milljónir dala á milli ára á tímabilinu sem er 21% hækkun á milli ára. Þá jókst launakostnaður um 2,6 milljónir dala á tímabilinu, eða 5%. Viðhaldskostnaður flugvéla dróst lítillega saman en aftur á móti jókst annar rekstrarkostnaður um 10,1 milljón dala á tímabilinu. Í tilkynningunni kemur fram að af þeirri fjárhæð skýrast 5,6 milljónir dala af aðkeyptri ferðaþjónustu vegna aukningar ferðamanna á Íslandi ásamt liðum tengdum auknum farþegatekjum svo sem bókunargjöldum, greiðslukortaþóknunum og umboðslaunakostnaði.

Fjármagnsliðir félagsins á tímabilinu voru jákvæðir um 3,3 milljónir dala, samanborið við það að þeir voru neikvæðir um 1,5 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Fjármagnstekjur Icelandair Group námu um 0,6 milljónum dala á tímabilinu, samanborið við rúmlega 2,8 milljónir dala á sama tíma í fyrra og drógust því saman um 2,2 milljónir dala á milli ára. Aftur á móti jókst gengismunur um tæpa 5,4 milljónir dala og nam um 5 milljónum dala á tímabilinu sem skýrir að mestu þennan jákvæða mun á fjármagnsliðum. Þetta skýrist að mestu af lækkun evru gagnvart Bandaríkjadal.

Langtímaskuldir lækka um 30 milljónir dala frá áramótum

Eiginfjárhlutfall í lok annars ársfjórðungs var 31% en eigið fé félagsins var í lok tímabilsins 253,7 milljónir dala og jókst um 29 milljónir dala. Handbært fé frá rekstri nam um 72,2 milljónum dala í lok annars ársfjórðungs, samanborið við 42,9 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Vaxtaberandi skuldir í lok fyrri helming ársins námu rúml. 167 milljónum dala og hafa lækkað um tæpl. 30 milljónir dala frá áramótum. Afborganir langtímaskulda á öðrum ársfjórðungi námu 3,9 milljónum dala.