Nýir eigendur tóku við rekstri Kaffi Loka á Skólavörðuholti um áramótin en það eru þau Valdimar Hilmarsson og hjónin Perla Rúnarsdóttir og Bjarni Björnsson að því er kemur fram í tilkynningu.

Valdimar á og rekur veitingahúsið Sölku Völku á Skólavörðustíg 23. Perla hefur starfað við fiskútflutning og verður nýr framkvæmdastjóri Loka.

Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson ráku Kaffi Loka í áratug á Lokastíg 28 og það á tveimur hæðum hússins undanfarin ár.

Nýir eigendur Kaffi Loka keyptu húsið og veitingareksturinn síðla árs 2017 og tóku við starfseminni núna í upphafi árs 2018. Þeir segjast ætla að reka Loka á svipuðum nótum áfram, enda sé ekki ástæða til að breyta mikið formúlum sem virki vel!

Hrönn og Þórólfur þakka gestum sínum samskipti og viðskipti á Kaffi Loka og óska þeim og landsmönnum öllum gleðilegs árs og velfarnaðar.