Óttarr Proppé, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, hefur verið ráðinn verslunarstjóri Bóksölu stúdenta. Félagsstofnun stúdenta, sem á og rekur Bóksölu stúdenta, hefur ráðið Óttarr Proppé til starfsins og hefur hann störf þann 1. júní nk. Óttarr hefur þekkingu og reynslu af bóksölu en hann starfaði hjá Almenna bókafélaginu, Eymundsson og Máli og menningu á árunum 1987 til 2010.

Frá árinu 2010 til ársins 2017 starfaði Óttarr á vettvangi stjórnmála með Besta flokknum og Bjartri framtíð; í borgarstjórn, sem alþingismaður og sem heilbrigðisráðherra.

Hefur hann sinnt ýmsum trúnaðar- og nefndarstörfum í gegnum tíðina.  Óttarr er tónlistarmaður og lagahöfundur, en hefur einnig starfað sem leikari, handritshöfundur, hljóðmaður og framleiðandi við kvikmynda- og heimildarmyndagerð. Félagsstofnun stúdenta býður Óttarr velkominn til starfa segir í fréttatilkynningu.

Um Bóksölu stúdenta:

Bóksala stúdenta hefur verið rekin af Félagsstofnun stúdenta (FS) frá stofnun fyrirtækisins árið 1968. Meginmarkmið Bóksölunnar er að útvega stúdentum við Háskóla Íslands og öðrum háskólum landsins ásamt fjölda framhaldsskóla, kennslubækur og önnur námsgögn á sanngjörnu verði.

Í áranna rás hefur umfang verslunarinnar aukist verulega, útvegar hún fjölda stofnanna fag- og fræðirit en að auki er verslunin hefðbundin bóka- og gjafavöruverslun og er hún öllum opin. Bóksala stúdenta er ekki hagnaðardrifin og er verðlagi haldið niðri eins og kostur er.

Bóksalan hefur að jafnaði um 12 þúsund titla á lager hverju sinni ásamt smá- og gjafavöru, og rekur stærstu vefverslun landsins með sömu titla, auk yfir 100 þúsund erlendra rafbóka. Verslun Bóksölu stúdenta er staðsett á Háskólatorgi við Sæmundargötu. Frekari upplýsingar má finna á www.boksala.is.

Um Félagsstofnun stúdenta:

Félagsstofnun stúdenta (FS) er sjálfseignarstofnun með sjálfstæða fjárhagsábyrgð. FS var stofnuð árið 1968 og tók formlega til starfa 1. júní sama ár. Aðild að stofnuninni eiga allir skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands, Háskólinn og Menntamálaráðuneytið.

FS er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki fyrir stúdenta við Háskóla Íslands og er aðalmarkmið að bjóða stúdentum við HÍ góða þjónustu á góðum kjörum og auka lífsgæði þeirra. Félagsstofnun stúdenta rekur Stúdentagarða, Stúdentakjallarann, Bóksölu stúdenta, Hámu veitingasölu og Leikskóla stúdenta (Sólgarð, Mánagarð og Leikgarð).