*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 13. febrúar 2010 15:13

Óttast varanlegt frost á fasteignamarkaði

Fasteignaverð hefur lækkað um 35% að raunvirði

Magnús Halldórsson

„Við höfum verulegar áhyggjur af stöðu mála, því er ekki að leyna. Það hefur aftur hægst á veltu á fasteignamarkaðnum eftir að hann hafði verið að sækja örlítið í sig veðrið í lok síðasta árs," segir Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins.

Á síðustu sex vikum hefur velta á fasteignamarkaði verið með allra lægsta móti. Meðaltalsveltan á þeim tíma hefur verið um einn milljarður. Það er um helmingur veltunnar þegar horft er til meðaltals undanfarnar tólf vikur. Viðmælendur Viðskiptablaðsins sögðu ekki hægt að skýra þessa þróun með því að um árstíðabundna sveiflu væri að ræða. Frekar væri raunveruleg hætta á því að nær algjört frost yrði á markaðnum.

„Botninum náð"?

Í árslok í fyrra birtu Samtök iðnaðarins frétt á vefsíðu sinni undir fyrirsögninni: „Botninum náð á fasteignamarkaðnum".

Í fréttinni voru horfur sagðar almennt betri en mánuðina á undan. Þar sagði m.a. orðrétt: „Margt bendir til að þess sé skammt að bíða að markaðurinn með íbúðahúsnæði fari að taka við sér aftur. Skv. nýrri skýrslu VSÓ eru 1850 ónýttar nýjar íbúðir sem eru fokheldar eða lengra komnar á höfuðborgarsvæðinu. Inni í þeim tölum eru einbýlishús og aðrar eignir sem verið er að byggja til eigin nota og koma því ekki til sölu. Því má áætla að innan við 1500 nýjar íbúðir séu til sölu sem er u.þ.b. áætluð ársþörf á markaðinum."

Árni segir áhyggjuefnið nú ekki endilega snúa að offramboðinu, heldur ekki síður almennri getu fólks til að standa í fasteignaviðskiptum.

„Almenn óvissa í efnahagsmálum landsins hefur mikil áhrif á fasteignamarkaðinn, sem síðar hefur gríðarlega mikil áhrif á ýmsa þjónustu og iðnað. Hugsanlega hefur alls ekki verið nóg gert til að taka á þeim vanda skuldara sem hrun bankanna olli. Vandamálin geta dýpkað mikið ef skuldavandi heimila í landinu er vanmetinn og þá er hætta á nær algjöru frosti á markaðnum," segir Árni.

Hrun bankanna hefur hins vegar hleypt miklu lífi í leigumarkaðinn þar sem færri eru tilbúnir að fjárfesta í fasteignum sem samkvæmt spám Seðlabanka Íslands eiga enn eftir að falla í verði um 15 til 20%. Raunverðslækkunin frá því þegar það var hæst, haustið 2007, er nú rúmlega 35%. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins í fyrra var um tíu þúsund leigusamningum þinglýst, miðað við um sjö þúsund árið á undan á sama tímabili. Meðaltalið á árunum 2005 til 2007, þegar viðskipti með fasteignir voru sem líflegust, var um fimm þúsund samningar.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim