Sala kanadíska sjávarafurðaframleiðandans High Liner Foods var ein sú mesta í sögu fyrirtækisins á síðasta ári. Sömu sögu er að segja af aðlöguðum hagnaði félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) og tekjum á árinu 2012. Bættar rekstrartölur eru raktar til kaupa High Liner á bandaríska hluta Icelandic. High Liner keypti bandaríska hluta félagsins af Framtakssjóði Íslands í desember 2011. Kaupverð var samtals 247,9 milljónir dollarar, eða um 30,2 milljarðar króna.

Hagnaður High Liner á síðasta ári nam um 2,2 milljónum Bandaríkjadala þrátt fyrir um 2,7 milljóna dala tap á síðasta ársfjórðungi 2012. Aðlöguð EBITDA jókst um 62,5% frá fyrra ári og nam alls 91,7 milljónum dala, jafnvirði um 11,6 milljörðum króna.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) seldi bandaríska hluta Icelandic til High Liner seint á árinu 2011. Með í kaupunum fylgdi tengd innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu. Með sölunni lauk fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandic, sem komst í eigu Landsbankans og rann inn í FSÍ þegar sjóðurinn keypti Vestia eignarhaldsfélag af bankanum. Vestia heldur áfram um íslenska hluta Icelandic.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.