Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg vilja leggja fram 22 breytingatillögur á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017. „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja ma. skoða að lækka útsvar á móti bættum rekstri borgarinnar, bjóða út sorphirðu í Reykjavík, lengja opnunartíma sundlauga og lækka fasteignaskatta töluvert í takt við mikla hækkun á húsnæðisverði.,“ segir í yfirlýsingu frá borgarfulltrúum Sjálfstæðismanna í borginni.

Jafnframt vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins innleiða breytingar í velferðarþjónustunni til að takast á við fjölgun aldraðra og þjónustuþarfir þeirra og fatlaðs fólks. „Innleiða verður breytingar með mun sterkari hætti en gert hefur verið. Ljóst er að ekki verður hægt að reka velferðarþjónustuna með sama hætti næstu áratugi og telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að bregðast þurfi við strax,“ segir í tilkynningunni.

Engin merki um að skuldir samstæðu séu að lækka

Borgarfulltrúarnir benda á að góð staða ríkissjóðs sé að skila sér til borgarinnar sem nýtir sér þann ramma í botn sem lög um álagningu útsvars leyfa. Reksturinn er að lagast enda eru tekjur samstæðu að aukast um 13% á tveimur árum.

„Þrátt fyrir þennan rekstrarbata sjást engin merki þess að skuldir og skuldbindingar samstæðu séu að lækka. Þær verða áfram rétt um 300 milljarðar kr. og skuldir A hluta munu hækka úr 80,7 milljörðum kr. í 91 milljarð kr. milli ára. Þá benda áætlanir einnig til þess að samstæða Reykjavíkurborgar verði yfir löglegu hámarki skuldahlutfalls skv. sveitarstjórnarlögum til a.m.k. ársins 2020 sem þýðir að Reykjavíkurborg verður áfram í hópi skuldugustu sveitarfélaga landsins þrátt fyrir óhemju hagstæði ytri skilyrði,“ segir að lokum í tilkynningu frá Sjálfstæðismönnum.