Rætt var um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser á kaupunum á Búnaðarbankanum í morgun á Alþingi. Bæði Ríkisútvarpið og Mbl.is tóku saman yfirlit yfir umræðurnar.

Þar spurði Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, meðal annars hver skýldi sér á bak við lundagrímuna? En í skýrslunni kom fram að fléttan í kringum aðkomu Hauck & Aufhäuser hafi verið nefnd Puffinn, eða lundinn. Fjármálaráðherra sagði jafnframt að spurningar hefðu vaknað hjá honum um störf eftirlitsstofnana og bendir á þrátt fyrir að hafi verið uppi rökstuddur grunur um blekkingar á sínum tíma, hafi Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun komist að annarri niðurstöðu.

Fjármálaráðherra sagðist jafnframt vera fylgjandi því að rannsaka einkavæðingu bankanna fyrir hrun og sagði að hann hafi sent Fjármáleftirlitinu ellefu spurningar sem vonandi yrðu til þess að upplýst væri hverjir væru raunverulegir eigendur þeirra sjóða sem keyptu þrjátíu prósenta hlut í Arion banka, á dögunum.

Vill hefja rannsókn á einkavæðingunni

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði á þingi í dag að þau nýju gögn sem komu fram í gær í skýrslunni kalli eftir því að hefja rannsókn á einkavæðingunni á bönkunum. Hún sagði að það væri meirihluti á þingi til að hefja slíka rannsókn, þótt formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar og formaður Sjálfstæðisflokksins væru gegn slíkri rannsókn.

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði að sín skoðun væri að það væri ekki frekari tilefni til nýrra rannsókna nema einhver ný gögn kæmi fram.  „Ég vil fara vandlega yfir þessi gögn og taka afstöðu til málsins þegar ég hef gert það,“ sagði Brynjar á Alþingi í dag.