Stjórn N1 telur mikilvægt að eðlileg samkeppni ríki á eldsneytismarkaði. Það sýni m.a. afslættir olíufélaganna. Í yfirlýsingu frá félaginu í kjölfar ummæla Hermanns Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra olíufélagins í Viðskiptablaðinu í dag, að N1 hafi í einu og öllu farið að lögum og reglum

Hermann Guðmundsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í morgun, eldsneytisverð geta verið lægra hér á landi. Ekkert olíufélag hafi hins vegar burði til að lækka verðið nema N1. Ástæðan fyrir því að verðið er ekki lægra er sú að hin olíufélögin eru mun skuldsettari en N1 og geti þau því ekki lækkað verðið hjá sér. Hann bendir á að olíufélögin fari af þessum sökum ekki í verðstríð enda geti afleiðingarnar orðið afdrifaríkar, jafnvel eitt til tvö orðið gjaldþrota.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við vb.is í dag, að eftirlitið ætli af þessum sökum að skoða hvort olíufélögin hafi gerst brotleg við samkeppnislög.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Vegna ummæla Hermanns Guðmundssonar fyrrverandi forstjóra N1 í fjölmiðlum í dag vill stjórn N1 koma eftirfarandi á framfæri:

Stjórn N1 telur mikilvægt að eðlileg samkeppni ríki á eldsneytismarkaði og telur að svo hafi verið.  Ljóst er að félögin á markaðnum hafa þurft að fara í gegnum endurskipulagningu sinna skulda, eins og fjölmörg fyrirtæki á Íslandi. Samkeppni við önnur olíufélög er mjög virk og hefur birst meðal annars undanfarið í háum tímabundnum afsláttum, aukinni þjónustu og afsláttum til neytenda í gegnum tryggðarkerfi. Stjórnin, í samvinnu við nýráðinn forstjóra, stjórnendur og starfsfólk um land allt, mun tryggja að fyrirtækið láti ekki sitt eftir liggja í áframhaldandi samkeppni og verði í fararbroddi heilbrigðra viðskiptahátta.

Af gefnu tilefni vill stjórnin árétta að farið er í einu og öllu að lögum og reglum í starfsemi félagsins.

F.h. stjórnar N1

Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður