Mikilvægum og jafnvel lögboðnum upplýsingum er haldið eftir í ársreikningum Íslandspósts, eða framsetning svo villandi að svo gæti virst sem um ásetning sé að ræða. Þó er augljóst að mikill og viðvarandi taprekstur er af samkeppnisrekstri Íslandspósts. Þrátt fyrir það nýtir fyrirtækið fjármagn sem stafar frá einkaréttarvarinni starfsemi til að niðurgreiða tap af samkeppnisrekstri. Slíkt er óheimilt samkvæmt lögum.

Þetta er niðurstaða úttektar Fjárstoðar á samkeppnisrekstri Íslandspósts, en Viðskiptablaðið hefur undir höndum útdrátt úr úttektinni. Greiningin var unnin fyrir Póstmarkaðinn ehf. og Félag atvinnurekenda (FA) og byggir á opinberum upplýsingum. Markmið úttektarinnar var meðal annars að varpa ljósi á samkeppnisrekstur Íslandspósts.

FA og Póstmarkaðurinn hafa á undanförnum árum sakað Íslandspóst um ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki. Með hliðsjón af úttektinni hefur FA sent erindi til stjórnar Íslandspósts þar sem óskað er eftir svörum við spurningum sem snúa að samkeppnisháttum fyrirtækisins.

Íslandspóstur er opinbert hlutafélag sem fer með einkarétt íslenska ríkisins í hefðbundinni póstþjónustu, það er dreifingu almennra bréfa undir 50 gr. ásamt uppsetningu, rekstri póstkassa og útgáfu frímerkja. Íslandspósti ber einnig skylda til að inna af hendi lögbundna grunnþjónustu (alþjónustu) á landsvísu – þó án þess að hafa til þess einkarétt – svo sem dreifingu á bréfum með utanáskrift, dreifingu á markpósti, uppsetningu og tæmingu á póstkössum, ábyrgðarsendingar, fjármunasendingar og bögglasendingar.

Hvað aðra póstþjónustu varðar utan póstdreifingar er Íslandspóstur í samkeppni við aðra aðila á póstmarkaði og tengdum mörkuðum. Undir samkeppnisrekstur Íslandspósts fellur til að mynda uppbygging sendibílaþjónustu með tilheyrandi fjárfestingum, flutningaþjónusta, verslunarrekstur, ePóstur, fjölpóstur, vöruhótel og fleira.

Yfir þriggja milljarða króna taprekstur

Í úttekt Fjárstoðar kemur fram að töluvert skorti á að samstæðureikningar Íslandspósts uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og reglugerðum. Jafnframt brýtur framsetning reikninganna í bága við samþykktir félagsins, sem kveða á um „skilmerkilega og ítarlega framsetningu tekna og gjalda fyrirtækisins, eignir þess og skuldir.“ Þannig er til að mynda lítið um skilgreiningar á tekjum og gjöldum fyrirtækisins eða frekari sundurliðun á þeim. Einnig gerir Fjárstoð athugasemd við ófullnægjandi og villandi framsetningu á starfs­ þáttayfirliti í ársreikningum og ársskýrslum Íslandspósts.

Þrátt fyrir verulegan skort á gagnsæi í ársreikningum Íslandspósts leiðir greining Fjárstoðar í ljós að samkeppnisrekstur Íslandspósts hafi verið félaginu þungur baggi. Tap af samkeppnisrekstri Íslandspósts á árunum 2011 til 2015 hljóðar upp á 1,4 milljarða króna samtals samkvæmt ársreikningum en 3,1 milljarð hið minnsta með taprekstri dótturfélaga og án millifærslna.

Stjórnendur Íslandspósts hafa metið að af þessu tapi megi rekja 1,5 milljarða til alþjónustukvaðar félagsins, en þær tölur hafa meðal annars verið dregnar í efa af Póst- og fjarskiptastofnun.

Hins vegar hefur umtalsverður hagnaður verið af starfsemi einkaréttar um langt árabil, enda kveða lög á um að verðskrá einkaréttarþjónustunnar taki mið af raunkostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu.

Áhrifin af ósjálfbærum samkeppnisrekstri Íslandspósts á rekstrarafkomuna hafa verið töluverð. Stjórnendur Íslandspósts hafa sagt afkomuna óá­sættanlega og að verulega hafi vantað upp á nauðsynlegan árlegan hagnað til að standa undir skuldbindingum og endurnýjun rekstrarfjármuna síðustu ár. Stjórnendur félagsins hafa tilkynnt að fækka eigi dreifingardögum bréfapósts til að bregð­ast við óviðunandi afkomu, en sú þjónusta fellur að stærstum hluta innan einkaréttar.

Á sama tíma og samkeppnisrekstur Íslandspósts hefur verið rekinn með gríðarlegu tapi, hvort sem er innan móðurfélagsins eða í dótturfélögum þess, telur Fjárstoð ljóst að sá rekstur hafi verið fjármagnaður af móðurfélaginu. Ekkert lát hefur verið á fjárfestingum í rekstrarfjármunum þrátt fyrir að seglin hafi verið dregin saman í starfsemi innan einkaréttar félagsins, en fjárfestingarnar hafa í auknum mæli stutt við sókn á samkeppnismörkuðum og virðast þær taka mið af þörfum samkeppnisrekstrarins. Þannig er samkeppnisreksturinn fjármagnaður frá starfsemi í einkarétti eða með eigin fé Íslandspósts, sem hefur byggst upp af þeirri starfsemi í gegnum tíðina.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, vildi ekki tjá sig um greiningu Fjárstoðar þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .