Bilið milli þeirra sem segjast treysta Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns Vinstri grænna (VG), og þeirra sem segjast vantreysta honum heldur áfram breikka líkt og það hefur gert allverulega sl. tvö ár.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum sem birt var í gær. Frá því að Steingrímur settist í ríkisstjórn í febrúar 2009 hefur þeim farið sífellt fjölgandi sem segjast vantreysta honum. Þá hafa þeir aldrei mælst jafn fáir sem segjast treysta honum en nú.

Tæplega 20% aðspurðra segist bera „frekar eða mjög mikið“ traust til Steingríms J. samkvæmt könnuninni. Í febrúar 2009, þegar Steingrímur J. varð ráðherra í ríkisstjórn, sögðust 38% bera frekar eða mikið traust til hans. Það var þó ekki fyrr en eftir vorið 2010 sem bilið fór að breikka milli þeirra sem segjast treysta honum eða vantreysta. Til gamans má geta þess að fyrsti Icesave samningurinn, hinn svokallaði Svavars-samningur, var birtur í júní 2010.

Traust til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns VG, skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns VG, skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti til Steingríms J. frá því í desember 2008. Fjöldi þeirra sem segjast bera „frekar eða mjög lítið“ traust til Steingríms J. hefur aldrei verið meiri en nú frá því að MMR birti fyrstu könnun sína í þessum flokki í desember 2008. Nú segjast rúmlega 61% aðspurðra vantreysta Steingrími J.

Missir mesta traustið meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Steingríms J. flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést hvernig traust til hans hefur dalað í öllum flokkum fyrir utan sinn eigin flokk þar sem traustið eykst á ný. Í desember 2008 sögðust tæplega 84% stuðningsmanna VG treysta Steingrími en nú segjast um 91% stuðningsmanna VG treysta honum. Mest fór traustfylgið meðal stuðningsmanna VG í 93% í september 2009 en lægst fór það í mars í fyrra, eða um 82%.

Traust til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns VG, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns VG, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Steingrímur J. nýtur líka töluverðs trausts meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar þó það hafi farið ört minnkandi. Frá því í mars í fyrra, þegar síðasta könnun var birt, missir Steingrímur mest traust hjá stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, eða átta prósentustig.

Í desember 2008, á meðan Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, voru aðeins um 25% stuðningsmanna Samfylkingarinnar sem sögðust treysta Steingrími J. Eftir að VG og Samfylkingin mynduðu ríkisstjórn í febrúar 2009 jókst traust stuðningsmanna Samfylkingarinnar á Steingrími J. og mest fór hæst í 78% í maí 2010. Síðan þá hefur það minnkað og nú segjast um 59% stuðningsmanna Samfylkingarinnar treysta honum.

Traustið meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins hefur einnig minnkað verulega, úr 35% í febrúar 2009 í rúmlega 7% nú. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þó sveiflast örlítið í afstöðu sinni til Steingríms J. Í desember 2008 sögðustu 12% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins treysta honum. Eftir að vinstri stjórnin var mynduð í febrúar 2009 fór traustið þverrandi en jókst þó aftur fram að maí 2010 þegar traust Steingríms J. mældist aftur um 12% meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Nú er það komið niður í 1,7%.