*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 14. nóvember 2017 13:24

Um 61% fór til útlanda í sumar

Íslendingum sem ferðuðust til útlanda fjölgaði um 7 prósentustig milli ára, en sumarið 2010 fór einungis þriðjungur utan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup ferðaðist nær 61% Íslendinga til útlanda síðastliðið sumar og er það töluverð aukning frá því fyrir ári þegar hlutfall þeirra sem ferðuðust úr landi var 55%.

Fyrir það ferðaðist minnihluti þjóðarinnar til útlanda, en hlutfallið hefur meira og minna verið að aukast síðan mælingar hófust árið 2010. Það ár ferðuðust 33% þjóðarinnar utan, 41% næsta ár á eftir og svo lækkaði hlutfallið aðeins á ný og fór í 39% árið 2012, en jókst síðan upp í 47% árið 2015. Ekki virðist sem Gallup hafi mælt fyrir árið 2014.

Hlutfallslega fleiri konur en karlar ferðuðust til útlanda í sumar, og fleiri meðal fólks yngra en 30 ára en þeirra sem eru eldri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins ferðuðust frekar til útlanda í sumar en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk með háskólapróf frekar en þeir sem hafa minni menntun að baki. Loks er fólk líklegra til að hafa ferðast til útlanda í sumar eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.