Elín Jónsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka, sumarið 2014. Áður starfaði hún sem forstjóri Bankasýslu ríkisins frá árinu 2010 til 2012. Fyrir þann tíma starfaði hún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis auk þess sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Arev verðbréfafyrirtæki frá árinu 2005 til 2009.

Seint í október komu fram breyttar tillögur frá slitastjórn Glitnis sem fólu í sér að allur hlutur hennar í Íslandsbanka yrði framseldur til ríkisins. Það þýðir að Íslandsbanki mun á næstunni tilheyra Bankasýslunni sem Elín stýrði á árum áður.

Hvernig sérð þú fyrir þér eignarhald á Íslandsbanka til framtíðar og mun það hafa mikil áhrif á daglegan rekstur að heyra undir Bankasýsluna?

„Já, það er áhugavert hvernig lífið snýr manni í hringi,“ segir Elín. „Þessi niðurstaða er vissulega góð fyrir íslenska skattgreiðendur, en að sama skapi skiptir miklu máli að losað verði um eignarhlut ríkisins eins fljótt og kostur er, það getur ekki verið gott að ríkið eigi tvo viðskiptabanka nema í örstuttan tíma. Íslandsbanki er tilbúinn í sölu, enda hefur verið unnið að því um nokkurt skeið. Það hefur væntanlega lítil áhrif til breytinga á daglegum rekstri bankans að heyra 100% undir Bankasýsluna til skamms tíma, en 5% hlutur ríkisins hefur legið þar frá árinu 2010 og stjórnendum er vel kunnugt um eigandastefnu ríkisins.“

Nánar er rætt við Elínu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .