Hlutfall vanskila af útlánum í lok 2. ársfjórðungs 2007 er tæplega 0,6% samanborið við 0,7% í lok 1. ársfjórðungs 2007 og rúmlega 0,5% í lok árs 2006 að því er kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins.  Frá árslokum 2005 hefur hlutfallið verið á bilinu 0,5?0,7%, sem eru lægstu vanskilahlutföll sem sést hafa á því rúmlega 6 ára tímabili sem yfirlitið nær yfir.


Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman tölur um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við lok júní 2007 og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan. Talnaefnið nær til vanskila sem staðið hafa lengur en 1 mánuð. Um er að ræða brúttó vanskil, þ.e. ekki hafa verið dregnar frá fjárhæðir sem lagðar hafa verið til hliðar sem sérstakar afskriftir. Sýnd er þróun vanskila frá árslokum 2000. Vanskilaupplýsingarnar sýna tölur fyrir innlánsstofnanir án dótturfélaga þeirra.


Á yfirlitinu eru sýnd vanskilahlutföll með annars vegar eins árs tímatöf og hins vegar tveggja ára tímatöf og er þannig tekið tillit til áhrifa mikillar útlánaaukningar síðustu misseri á hlutfallstölurnar. Vanskilahlutföllin mæld samkvæmt þessum mælikvörðum eru 0,6% og 1,1% af útlánum samanborið við 0,8 og 1,3% í lok árs 2006.


Vanskilahlutfall fyrirtækja er 0,5% í lok 2. ársfjórðungs 2007 sem er óbreytt samanborið við árslok 2006. Vanskilahlutföll fyrirtækja miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 0,6% og 1,0% og eru þau lægstu sem yfirlitið sýnir.


Vanskilahlutfall einstaklinga er 0,8% í lok 2. ársfjórðungs 2007 sem er nánast óbreytt hlutfall frá lokum tveggja næstu ársfjórðunga á undan. Vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 0,9% og 1,4% og eru þau lægstu sem yfirlitið sýnir.


Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri FME segir í tilkynningu þessi vanskilahlutföll vera þau lægstu sem sést hafa á því rúmlega 6 ára tímabili sem yfirlitið nær yfir.


,,Vanskilahlutföllin eru nú í sögulegu lágmarki. Þó ber að athuga að útlánaaukningin á undanförnum misserum kann að koma fram í auknum vanskilum síðar. Í því sambandi er rétt að benda á að þátttaka innlánsstofnana í fasteignalánum frá og með seinni hluta ársins 2004 kann að hafa haft áhrif á þróun vanskila sem sýnd er á yfirlitinu, einkum vanskilahlutfall einstaklinga?.


Hafa verður í huga við lestur yfirlitanna að í árslok hvers árs eru færð út endanlega afskrifuð útlán sem koma til lækkunar á brúttó vanskilafjárhæðum og hafa þannig áhrif á vanskil í lok 4. ársfjórðungs og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan.