Samanburður Morgunblaðsins á launum heilbrigðisstarfsfólks á Norðurlöndum, sem birtist síðasta laugardag, var um margt áhugaverður. Túlkun niðurstaðnanna missti hins vegar marks.

Heildarlaun lækna og hjúkrunarfræðinga á Íslandi, með vaktaálagi og yfirvinnugreiðslum, voru þar borin saman við föst mánaðarlaun lækna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þar voru einfaldlega borin saman epli og appelsínur og hvíldi sú sönnunarbyrði á blaðamanninum að rökstyðja vandlega hvers vegna þessar tölur voru bornar saman.

Í því skyni var vitnað til Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann sagði að tölurnar bentu til þess að laun lækna og hjúkrunarfræðinga væru hæst á Íslandi. Nú vill svo til að Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt launastefnu hins opinbera gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, einkum læknum. Í ljósi þessa hefði það styrkt trúverðugleika greinarinnar verulega að fá mat fleiri aðila á því hvort þessi samanburður sé réttur.

Það var hins vegar ekki gert og þetta mat Hannesar var gert að fyrirsögn. Það er eitt og sér ekki endilega gagnrýnivert, en Morgunblaðið gekk hins vegar skrefinu lengra og fullyrti í fyrirsögn á forsíðu að launin væru hæst á Íslandi.

Eftir stendur að Morgunblaðið hafði ekki upplýsingar um heildarlaun lækna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Uppslag fréttarinnar byggði á getgátum, eins og kom skýrt fram í fréttinni sjálfri. Við þessar aðstæður hefði einfaldlega verið mun eðlilegra að bera saman föst mánaðarlaun í löndunum fjögur, en sá samanburður er algjörlega áhugaverður í sjálfu sér. Þá kemur meðal annars í ljós að laun lækna á Íslandi eru hærri en í Noregi og laun hjúkrunarfræðinga hærri en í Svíþjóð.

Sem hagfræðingi með dálæti á framsetningu tölfræðilegra upplýsinga gat ég ekki annað en misst nokkuð álit á Morgunblaðinu á laugardaginn. Það er miður.