Í síðustu viku kom út uppskriftabók sem ég skrifaði og ber hún nafnið Grillréttir Hagkaups. Í bókinni eru yfir 230 uppskriftir. Ég get sagt ykkur að það liggur mjög mikil vinna á bakvið þær allar sem og myndatökuna.

Í staðinn fyrir að gera heila rétti ákvað ég að skipta bókinni niður í hráefni. Það er t.d. kjúklingakafli, nautakafli, grænmetiskafli og sósukafli þannig að fólk getur alveg ráðið hvað það fer djúpt í að grilla. Það er hægt að fara alla leið og undirbúa allt sjálfur eða bara gera aðalhráefnið, kaupa tilbúna sósu með og henda í einfalt salat. Þetta fannst mér skemmtileg pæling og ég held að fólk sé bara mjög ánægt með bókina.

Ég er allavega mjög ánægð með hana og langar að deila með ykkur einni uppskrift úr henni sem er í uppáhaldi hjá mér. Það er hunangs-balsamik lambahryggvöðvi sem sjá má á mynd hér með pistlinum. Þegar kjötið er búið að liggja í marineringunni og það grillað þá lokast kjötsafinn alveg inní kjötinu og það springur uppi í manni. Algjört lostæti.

Hér er uppskriftin: Hunangs-balsamik lambahryggvöðvi

  • 800 g lambahryggvöðvi
  • 4 rif hvítlaukur
  • 30 ml balsamik edik
  • 30 ml hunang
  • 1/4 búnt steinselja
  • 30 ml ólífuolía
  • salt
  • pipar

Setjið balsamikedikið, hvítlaukinn, hunangið og steinseljuna í matvinnsluvél og maukið vel saman. Hellið ólífuolíunni rólega út í með kveikt á vélinni. Rífið fituna af lambinu og skerið sinina í burtu.

Marinerið kjötið í leginum í 20 mínútur. Penslið kjötið og kryddið það með salti og pipar. Grillið á heitu grillinu í 5 mínútur á hvorri hlið.

Eigið gott grillsumar :)