Erfitt er fyrir þau okkar, sem efins eru um ágæti frumvarps stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá að líta á niðurstöðu kosninganna um helgina sem sigur. Vissulega hefur verið bent á að tveir þriðju atkvæðisbærra einstaklinga greiddu ekki atkvæði með því að leggja eigi frumvarpið til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Það skiptir hins vegar litlu sem engu máli. Helmingur þjóðarinnar tók þátt í atkvæðagreiðslunni og tveir þriðju kjósenda virðast líta á frumvarpið sem ágætisgrundvöll.

Stóra spurningin er ekki af hverju meirihluti þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með frumvarpinu.

Miklu frekar á að spyrja sig af hverju fleiri tóku ekki þátt. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins tóku sem betur fer afstöðu gegn frumvarpinu en gerðu hins vegar ekki mikið til að koma stuðningsmönnum flokksins í skilning um af hverju það er ekki æskilegt og af hverju þeir ættu því að mæta á kjörstað og fella það. Hugsanlega hefur þar ráðið einhverju hræðsla við að gamlir góðkunningjar flokksins myndu saka íhaldið um að vilja skemma fyrir lýðræðinu. Hins vegar er það svo að annar stjórnmálaflokkur, Borgarahreyfingin, varði töluverðum fjármunum í baráttu fyrir því að kjósendur greiddu atkvæði með frumvarpinu. Lítið fór fyrir þessari frétt annars staðar en í Viðskiptablaðinu, en hún sýnir þó að gagnrýnin úr þessari átt hefði ekki getað verið þungbær.

Allt að einu, kosningarnar fóru eins og þær fóru. Við tekur meðferð frumvarpsins í þinginu og vonast margir til þess að þingmenn sníði að minnsta kosti helstu vankantana, sem eru margir, af tillögu stjórnlagaráðsins.

Þó er ekki víst að ríkisstjórnin muni beita sér mjög fyrir því að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs. Í árslok 1994 lagði Jóhanna Sigurðardóttir fram frumvarp um stjórnlagaþing, sem ætti að taka alla stjórnarskrána í gegn. Áhugavert er að í ræðu Jóhönnu kemur berlega fram sú skoðun hennar að þingmönnum sé í raun ekki treystandi til að gera breytingar á stjórnarskránni og að niðurstöðu þessa stjórnlagaþings eigi að bera óbreytta undir þjóðina. Hafi hún ekki skipt um skoðun er ekki líklegt að hún fari fremst í flokki þeirra sem vilji krukka mikið í tillögur ráðsins. Þótt það sé því ekki ástæða til örvæntingar ennþá er rétt að hafa varann á.

Höfundur: Bjarni Ólafsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Pistill Bjarna birtist í Viðskiptablaðinu 25. október 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.