Stjórnmálamönnum hefur með einhverjum ótrúlegum hætti tekist að búa til afleitt landbúnaðarkerfi sem virðist ekki þjóna neinum. Það þjónar ekki skattgreiðendum sem greiða 15,3 milljarða króna í kerfið á þessu ári. Það er meira en 80.000 krónur árlega á hvert einasta heimili í landinu. Kerfið þjónar heldur ekki bændum sem bera sig ekki vel og búa margir við mjög dræm kjör.

Á frjálsum markaði myndast jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Ríkisafskipti af landbúnaði hafa búið til ófrjálsan markað með landbúnaðarvörur sem hefur nú meðal annars leitt til mikillar offramleiðslu á lambakjöti. Áralöng ríkisstyrkt markaðssetning lambakjöts í útlöndum virðist ekki vinna á kjötfjallinu. Kerfi sem skapar svona offramleiðslu og sóun þjónar heldur varla umhverfinu.

Til þess að sporna við offramleiðslunni hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, lagt til að bændum verði greitt fyrir að bregða búi. Ef það dregur úr kostnaði skattgreiðenda til lengri tíma þá er það hið besta mál. Það þarf hins vegar að gera meira en smávægilegar breytingar á kerfinu. Það þarf að umbylta því algerlega með því að losa það úr viðjum ríkisafskipta.

Auðvitað er eðlilegast að það séu engir ríkisstyrkir eða innflutningshindranir þannig að fólk keppi á eðlilegum samkeppnisforsendum með sínar landbúnaðarvörur og neytendur greiði raunvirði vörunnar beint þegar hún er keypt, í stað þess að gera það í gegnum skattkerfið. Með því myndu gæði aukast, verð lækka og sóun minnka. Staðreyndin er að þótt faðmur ríkisins geti verið hlýr, þá getur hann líka verið kæfandi. Það væri best fyrir alla, líka bændur, að losa kerfið úr viðjum ríkisafskipta.

Höfundur er lögfræðingur og MBA.