Í grein, sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), ritaði í Við­ skiptablaðið þann 16. júlí sl., setur hann fram harða gagnrýni á rekstur og starfsemi Íslandspósts ohf. og beinir í kjölfarið spurningum annars vegar til starfsmanns Íslandspósts og hins vegar stjórnarformanns. Greinarhöfundur virðist telja að spurningarnar hljóti að hafa vaknað í huga skattgreiðenda og keppinauta um afkomu félagsins og fyrirhugaðar lántökur í ljósi þess að kostnaðargrunnur Íslandspósts sé umdeildur og að lögbundið uppgjör á afkomu einstaka þjónustuþátta liggi ekki fyrir eins og segir í greininni. Þar er ekki aðeins beðið um skýr og greinargóð svör, heldur er þess jafnframt krafist að þau séu undanbragðalaus, án þess að það sé útskýrt frekar.

Í þessu sambandi er rétt að horfa til þess að á heimasíðu FA kemur fram að markmið félagsins, sem greinarhöfundur starfar fyrir, er einkum að efla það sem hagsmunagæsluaðila fyrir aðildarfyrirtæki. Þar er hvergi vikið að almannahagsmunum eða hagsmunum skattgreiðenda. Í ljósi þessa er framkvæmdastjórinn fyrst og fremst erindreki í þágu vel skilgreindra hagsmuna. Það verður því að telja nokkuð djarft teflt hjá höfundi að fella palladóma yfir starfsfólki og starfsemi Íslandspósts, væntanlega undir gunnfána almannahagsmuna og réttlætis, líkt og efni greinarinnar ber með sér. Þær staðreyndir er mikilvægt að hafa í huga þegar metin eru efnistök, röksemdir og framsetning höfundar í umræddri grein og raunar einnig í umfjöllun hans um Íslandspóst í ýmsum öðrum greinum í sama blaði undanfarna mánuði.

Póstmarkaðurinn ehf. og meðferð kærumála

Eitt af aðildarfyrirtækjum FA er Póstmarkaðurinn ehf., en það fyrirtæki hefur sterka stöðu á markaði fyrir söfnunarpóst. Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu Samskipa hf., sem er í samkeppni við Íslandspóst um dreifingu á vörum innanlands. Undanfarin fimm ár hefur Póstmarkaðurinn lagt fram margháttaðar kærur á hendur aðilum á póstmarkaði, m.a. á hendur Íslandspósti og Póstog fjarskiptastofnun. Málflutningur framkvæmdastjóra FA í umræddri grein er að öllu leyti í samræmi við efni og rökstuðning þeirra kærumála sem Póstmarkaðurinn hefur lagt fram. Það getur varla talist tilviljun. Mál þessi eru til efnislegrar meðferð­ ar hjá innlendum eftirlitsstofnunum og dómstólum, þar sem rétt er og eðlilegt að álitaefni, sem upp hafa verið borin, verði leidd til lykta.

Önnur gagnrýni í grein framkvæmdastjóra FA

Varðandi önnur efnisatriði greinarinnar en þau sem nú þegar eru til meðferðar hjá eftirlitsstofnunum og dómstólum er ljúft að veita eftirfarandi svör og skýringar:

1) Greinarhöfundur staðhæfir að Íslandspóstur hafi reynt að sýna fram á verri afkomu einkaréttarstarfseminnar en raunin er. Það er ekki rétt og má í því tilviki vísa til yfirlits Póst- og fjarskiptastofnunar frá 30. júní sl., en þar er fallist á það sjónarmið Íslandspósts að fullnægjandi forsendur hafi verið fyrir a.m.k. 300 millj. kr. leiðréttingartilfærslum frá samkeppnisrekstri félagsins yfir til einkaréttarþáttarins vegna ársins 2011. Þar er jafnframt staðfest réttmæti bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts, þar sem rekstrar- og fjárfestingarliðir eru staðfærðir með viðurkenndum hætti í kostnaðarbókhaldi félagsins á árunum 2007-2012. Það er því ekki rétt hjá framkvæmdastjóra FA að með þessum tilfærslum hefði Íslandspóstur reynt að sýna fram á að afkoma einkaréttarþáttarins væri verri en raun ber vitni, eins og fullyrt er í greininni. Ný aðferðafræði við kostnaðargreiningu fyrir árin 2013 og 2014 hefur verið til umfjöllunar hjá Póst- og fjarskiptastofnun og er nú unnið að því að leiða fram niðurstöðu um skilgreiningu á al­ þjónustubyrði. Hún á að sýna kostnað við óarðbæra póstþjónustu sem skylt er að veita lögum samkvæmt.

2) Þá fjallar greinarhöfundur um í grein sinni að undanfarin ár hafi vantað lögbundna sundurgreiningu á afkomu mismunandi þjónustu­ þátta Íslandspósts í ársreikning. Það er heldur ekki rétt. Sundurgreiningu mismunandi þjónustuþátta hefur ekki vantað í ársreikninga Íslandspósts, enda ekki skylt að birta slíka sundurgreiningu þar. Skýringu varð­ andi það er að finna í ársskýrslum. Af þessu tilefni er ástæða til að nefna að Íslandspóstur hefur undantekningalaust á hverju ári skilað ársreikningi til allra þeirra opinberu aðila sem með mál félagsins fara í samræmi við lög og reglur. Jafnframt hafa ársreikningar félagsins verið kynntir á heimasíðu félagsins auk þess sem þeir hafa verið prentaðir í nægjanlegu upplagi til almennrar dreifingar og afhendingar þeim, sem eftir hafa leitað. Ársreikningar Íslandspósts eru settir fram með almennt venjubundnum og við­ urkenndum hætti svo sem lög gera ráð fyrir. Fullyrðing framkvæmdastjóra FA um þetta efni er því fráleit.

3) Enn fremur fullyrðir greinarhöfundur að Íslandspóstur hafi fjárfest í óskyldum rekstri. Þar er enn um rangfærslu að ræða. Út af fyrir sig er ekkert sem bannar slíkar fjárfestingar, en Íslandspóstur hefur samt sem áður aðeins fjárfest í starfsemi sem stjórnendur þess hafa talið tengda og til þess fallna að styðja við kjarnastarfsemi félagsins og eru þær fjárfestingar raunar mjög í samræmi við það sem mörg póstfyrirtæki hafa lagt í víða um heim. Þessar fjárfestingar hafa verið mjög lítill hluti af rekstri Íslandspósts en hafa vissulega skilað tekjum og virðisauka fyrir fyrirtækið.­

Skattgreiðendum ekki ætlað að fjármagna reksturinn

Það er mikilvægt í allri umræðu um Íslandspóst að hafa í huga að fyrirtækið er sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins. Rekstrarleyfi Íslandspósts fylgir sú skylda að sinna þjónustu við alla landsmenn, sem í mörgum tilvikum er ekki arð­ bær. Alþjónustuskyldan, sem svo er nefnd í lögum, nær til þess að dreifa sendingum allt að 20 kg um allt land, og hefur hún það að markmiði að tryggja öllum landsmönnum, hvar sem þeir búa, tiltekna lágmarksþjónustu. Þeirri skyldu hefur fylgt einkaréttur ríkisins á dreifingu áritaðra bréfa allt að 50 g. Íslandspóstur hefur ekki endanlegt ákvörðunarvald um verðlagningu á þjónustu sem fellur undir einkaréttarsviðið, heldur er það Póst- og fjarskiptastofnunar. Sama má segja um umfang póstþjónustunnar, en það er í meginatriðum skilgreint í lögum. Íslandspósti er þrátt fyrir þetta ætlað að standa undir rekstrinum og skila arði í ríkissjóð. Það er því ekki gert ráð fyrir því að skattgreiðendur fjármagni reksturinn líkt og ráða má af skrifum höfundar greinarinnar.

Samkvæmt kostnaðaruppgjöri Íslandspósts hefur afkoma af dreifingu einkaréttarbréfa verið neikvæð undanfarin ár, en einkarétti er ætlað að standa undir kostnaði við alþjónustu að því marki sem tekjur af henni hafa ekki dugað til. Bent hefur verið á að aukning í vörudreifingu auk vöru- og þjónustusölu muni ekki nægja til þess að mæta tekjutapi vegna samdráttar í bréfasendingum og auknum kostnaði vegna lögbundinnar þjónustu. Þótt eiginfjárstaða Íslandspósts sé býsna sterk, þá blasir við að fyrirtækið getur ekki staðið undir óarðbærum rekstri póstþjónustunnar til lengdar. Stjórn og stjórnendur Íslandspósts hafa margsinnis bent á þessa staðreynd og hvatt til þess að brugðist verði við með nauðsynlegum breytingum á lögbundinni þjónustu. Þetta allt ætti greinarhöfundi að vera nokkuð ljóst, enda ítrekað verið um það fjallað í viðtölum, greinum og ársskýrslum Íslandspósts undanfarin ár.

Hver er tilgangur skrifa höfundar?

Það er vitaskuld ekki stjórnenda Íslandspósts að greina tilgang skrifa höfundar. Því síður er það hlutverk stjórnenda félagsins að taka ákvörðun um fyrirkomulag póst­ þjónustunnar, þó að þeir kunni að hafa á því skoðun. Það er á hinn bóginn hlutverk stjórnenda og hluthafa að taka ákvarðanir um rekstur fyrirtækisins sem og hvort grundvöllur sé fyrir núverandi rekstrarfyrirkomulagi. Fyrst og síðast er það stjórnmálamanna að kveða á um fyrirkomulag póstþjónustunnar, lagaumhverfið, hvernig póstþjónustan skuli fjármögnuð og hvernig eignarhaldi á Íslandspósti og annarra hlutafélaga í eigu ríkisins skuli fyrir komið.

Að loknum lestri á grein framkvæmdastjóra FA stendur eftir sú áleitna spurning: Hver er hinn raunverulegi tilgangur skrifa höfundar? Á samandregnu formi má segja um efni greinarinnar, að þar sé annars vegar fullyrt um nið­ urstöður eða málsatvik í málum sem eru til meðferðar hjá eftirlitsstofnunum og dómstólum og varða ágreining aðildarfélags FA við Íslandspóst, og hins vegar er greinin uppfull af stóryrðum og rangfærslum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Fullyrt er að skilyrði laga og reglna varðandi rekstur séu ekki uppfyllt. Í því sambandi er gengið svo langt að saka starfsmenn Íslandspósts um að rangfæra bókhald til þess að sýna fram á verri afkomu einkaréttarhlutans. Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að Íslandspóstur hefur ávallt verið undir sérstöku opinberu eftirliti, m.a. vegna þess að hluti af starfsemi félagsins nýtur einkaréttar, eins og áður hefur verið vikið að. Þá blasir við að hagsmunum tiltekinna aðildarfyrirtækja FA og fyrirtækja tengdum þeim væri efalaust betur borgið ef Íslandspóstur hyrfi af markaði eða yrði seldur tilteknum aðilum. Af þessum sökum er mjög mikilvægt að fá fram, hver hinn raunverulegi tilgangur skrifa framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda er.

Höfundur er forstjóri Íslandspósts.