Skráð atvinnuleysi hækkaði úr 3,6% í 3,8% á milli desember og janúar og hefur nú ekki verið hærra frá því í maí 2022. Til samanburðar var atvinnuleysið 3,7% í janúar 2023. Í mánaðarlegri skýrslu Vinnumálastofnunar er spáð því að atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 3,9% til 4,2% í febrúar.

Atvinnulausir voru 7.758 í lok janúar samanborið við 7.241 í lok desember. Alls höfðu 1.195 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok janúar 2024 og fjölgaði um 68 frá desember. Til samanburðar var fjöldinn 1.794 í janúar 2023.

Alls voru 4.229 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok janúar og fjölgaði um 234 frá desember. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 55% í lok janúar.

Mynd tekin úr skýrslu Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum tekur stökk

Atvinnuleysi hækkaði á flestum stöðum á landinu frá desember nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stóð í stað. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í janúar eða 6,7% og hækkaði úr 5,6% frá desember.

Gera má ráð fyrir að fjölgun atvinnulausra á Suðurnesjum megi að stórum hluta rekja til jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaganum. Í vikunni var til að mynda greint frá því að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Stakkavík í Grindavík hefði sagt upp 47 starfsmönnum í landvinnslu í janúar en vinnsluhús fyrirtækisins var metið ónýtt eftir jarðhræringar undanfarinna vikna.

Næst mest var atvinnuleysið 3,6% á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra eða 1,7% og á Austurlandi 2,6%.

Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum í janúar, mest var fjölgunin í verslun og vöruflutningum.