Helmingsaukning var milli ára í kortaveltu ferðamanna hér á landi, eða 51,4% aukning. Var kortaveltan í maí á þessu ári tæplega 20 milljarðar króna en rúmlega 13 milljarðar í sama mánuði árið 2015.

Fjórföldun á fjórum árum

Greiddu erlendir ferðamenn tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81% meira en í maí í fyrra. Kortavelta erlendra ferðamanna í dagvöruverslunum hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Erlendir ferðamann hafa greitt um 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum það sem af er árinu.

Vöxturinn milli ára í flugferðum var 146% í maí en mánuðurinn var sá sjöundi í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári.

Kortavelta ferðamanna til bílaleiga jókst einnig mikið og greiddu ferðamenn rúmlega 1,8 milljarða, eða um 43% meira, til bílaleiga í maí í ár heldur en á sama tíma í fyrra.

Greiddu ferðamenn um 6 milljarða í bílaleigubíla, og sé eldsneyti, viðgerðir og viðhald bifreiða tekið með í reikninginn nam erlend kortavelta ferðamanna það sem af er ári til þessara flokka rúmum 8 milljörðum. Hefur kortaveltan í flokki bílaleiga fjórfaldast frá árinu 2012.