Líbería þarf 1,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 147 milljörðum íslenskra króna, til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang í kjölfar versta ebólufaraldurs sem gengið hefur yfir landið.

Meðan faraldurinn stóð sem hæst sýkti vírusinn um 400 manns á viku, og leiddi hann meira en 11.200 manns til dauða í landinu og nágrannalöndunum Sierra Leone og Guinea.

Stofnað af fyrrum þrælum frá Bandaríkjunum

Saga Líberíu er töluvert frábrugðin flestum öðrum afríkulöndum, þar sem landið var aldrei nýlenda heldur var ríkið stofnað af svörtum leysingjum frá Bandaríkjunum sem vildu snúa aftur til Afríku.

Afkomendur þeirra réðu svo lögum og lofum í landinu þangað til valdarán á níunda áratug síðustu aldar leiddi til þess að í landinu skiptust á blóðugar einræðisstjórnir og borgarastríð.

Mikill hagvöxtur í heilan áratug

Síðan stöðugleiki komst aftur á hefur forseti landsins Ellen Johnson Sirleaf, sem áður vann fyrir Alþjóðabankann, stýrt hagkerfi í miklum vexti, en á milli áranna 2006 og 2013 var hagvöxturinn í landinu 8% að jafnaði.

Stefna stjórnvalda er að ná um 6% hagvexti frá árinu 2018, en á sama tíma og vírusinn lamaði landið þá hrundi hrávöruverð í heiminum, en stærsta tekjulind landsins er útflutningur á járngrýti.

Stærsta gúmmíplantekra í heiminum

Verð á járngrýti hefur fallið um meira en 60% og offramboð á gúmmí í heiminum hefur einnig haft skaðleg áhrif á annan meiriháttar útflutningsiðnað.

Þess má geta að bandaríska dekkjafyrirtækið Firestone rak á milli áranna 1926 og þangað til borgarastríðið hófst í landinu árið 1990 stærstu gúmmíplantekru í heiminum þar í landi.

Ætla að meira en tífalda raforkuframleiðslu

Fjármála- og þróunarmálaráðherra landsins Boima Kamara hyggst nota fjármagnið sem meðal annars á að safna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, til að fjárfesta í innviðum, þá sérstaklega raforkuframleiðslu. Ríkisorkufyrirtækið hafði árið 2015 einungis getu til að framleiða 22 megavött, en stefnan er að auka getuna um 200 megavött.

Betri raforkuframleiðsla mun „ýta undir verðmætaaukningu,“ sem ríkisstjórnin hyggst reyna að ná fram með fjárfestingum sínum, sagði Kamara, sem sagði að Líbería „gæti ekki treyst á hrávörur. Ef við aukum ekki fjölbreytileika hagkerfisins mun það halda áfram að vera viðkvæmt.“

Ríkið hefur dregið úr eyðslu um 3,5% á fjárhagsárinu 2016-2017, sem á að hjálpa til við að safna fjármagninu, og hefur líberíski dalurinn styrkst um 0,6 á árinu.