Fyrstu fjóra mánuði ársins 2015 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 221,9 milljarða króna en inn fyrir rúma 216,6 milljarða króna. Afgangur var því af vöruskiptum við útlönd sem nam 5,2 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 2,8 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 8 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Í aprílmánuði voru fluttar út vörur fyrir rúma 56,8 milljarða króna og inn fyrir tæpa 52,2 milljarða króna. Vöruskiptin í apríl, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um tæpa 4,7 milljarða króna. Í apríl 2014 voru vöruskiptin óhagstæð um 6,8 milljarða króna á gengi hvors árs.

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2015 var verðmæti vöruútflutnings 47,3 milljörðum eða 27,1% hærra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 40,7% hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Sjávarafurðir voru 40% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 18% hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.