Ákveðið hefur verið að AFL Sparisjóður verði settur í söluferli, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Ákvörðun um söluferli er tekin að höfðu samráði við eftirlitsaðila. Sparisjóðurinn hefur um nokkurra mánaða skeið ekki uppfyllt að fullu viðmið Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn og hefur Arion banki unnið að málefnum sjóðsins í samstarfi við stjórn hans, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið.

Á fundi stofnfjárhafa í AFLi sparisjóði sem fram fór fyrr í dag var kjörin ný stjórn sparisjóðsins auk þess sem breytt var samþykktum þannig að eftirleiðis hefur hver stofnfjárhafi atkvæðavægi á fundum stofnfjárhafa AFLs í réttu hlutfalli við eignarhlut í sjóðnum. Áður fór enginn stofnfjárhafi með atkvæðavægi umfram 5% sem skapaði ákveðna óvissu um stjórn og framtíð sjóðsins.

Arion banki eignaðist 95% í AFLi sparisjóði við yfirtökuna á Sparisjóði Mýrarsýslu árið 2009, en eignarhlutur bankans er í dag 99,3%. Frá 2009 hefur Arion banki lagt AFLi til umtalsvert eigið fé.

„Það er mikilvægt fyrir viðskiptavini sjóðsins, starfsfólk hans og eigendur að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um sjóðinn og framtíð hans. Stefnt er að niðurstaða söluferlisins liggi fyrir eins fljótt og auðið er,“ segir í tilkynningu.