Albert Þór Jónsson sem setið hefur sem stjórnarmaður í Reginn síðan í apríl 2015 hefur bætt við sig 140 þúsund hlutum í félaginu.

Fékk hann hlutina á genginu 24,45 sem er sama verð og er á gengi bréfanna í kauphöllinni þegar þetta er skrifað. Frá því að viðskipti hófust í morgun hefur gengi bréfanna hækkað um 0,41%.

Samtals nema viðskiptin því 3.423.000 krónum, en fyrir átti Albert Þór um 10 þúsund hluti. Heildarhlutur hans í félaginu er því nú að andvirði um 3.667.500 krónur. Útistandandi eru hins vegar 1.555.300.000 hlutir, svo eignarhlutur hans er hverfandi.

Albert þór er sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur með gráður frá bæði HÍ og HR, ásamt prófum í verðbréfaviðskiptum og löggildingu í fasteignaviðskiptum.

Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá FL Group 2005 til 2007, forstöðumaður eignastýringar LSR 2001 til 2005, forstöðumaður verðbréfamiðlunar Fjárvangs 1998 til 2001, forstöðumaður hjá Landsbréfum í fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun 1990 til 1998 og fjármálaráðgjafi hjá Glitni - kaupleigu 1986 til 1990.