*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 13. september 2017 19:17

Aldrei fengið minna en 5 stjörnur

Ferðaþjónustufyrirtækið Pink Iceland hefur náð frábærum árangri og leggur meira upp úr gæðum heldur en magni.

Pétur Gunnarsson
Pink Iceland skipuleggur meðal annars sérsniðin brúðkaup. Mynd:Lalli Sig.

„Okkur finnst mjög gaman að geta sannað það að það sé hægt að reka fyrirtæki á manneskjulegum forsendum,“ segir Hannes Pálsson, einn eigenda hinsegin ferðaþjónustufyrirtækisins Pink Iceland. Hann segir að áhersla Pink Iceland séu gæði fremur en magn.

Til marks um þetta bendir Hannes á að ef litið er inn á TripAdvisor síðu Pink Iceland þá kemstu að því að allir viðskiptavinir fyrirtækisins hafi gefið því fimm stjörnu umsögn. Til þess að sannreyna þá ótrúlegu staðhæfingu var gáð inn á TripAdvisor síðuna og þetta reyndist rétt.

„Það er mjög inspírerandi að lesa sig í gegnum þetta. Þjónustustigið hjá okkur er truflað. Í nýjustu ummælunum stendur svolítið skemmtilegt. Viðskiptavinirnir greina okkur alveg og skrifa: „Þessu fyrirtæki er meira umhugað um upplifanir en hagnað,“ segir Hannes, en bætir við, Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við verðum að þéna meira en við eyðum til að láta þetta ganga upp en á sama tíma viljum við byggja upp orðspor sem fyrirtæki sem er virkilega annt um bæði starfsmenn sína og gesti. Það hjálpar okkur líka til lengri tíma, þegar og ef halla fer undan í íslenskri ferðaþjónustu. 

Krónan slæm fyrir brúðkaupsskipulagningu

Hannes segir að þau hjá Pink Iceland hafi fundið fyrir því að fólk sé farið að halda að sér höndum í auknum mæli, þegar hann er spurður út í það hvort að fyrirtækið finni fyrir sterkari krónu. „Það er ekki endilega fækkun, frekar en minni umsvif og minni þjónusta keypt. Þetta er algjörlega tengt krónunni. Þetta eru brúðkaup svo við erum að vinna eitt til tvö ár fram í tímann. Við erum alltaf að hækka reikninginn hjá erlendum viðskiptavinum, þó að upphæðin sé alltaf sú sama í íslenskum krónum. Við erum ekki hræddust við verðið, heldur það sem við viljum mest er stöðugleiki, að geta staðið við það sem maður segir,“ tekur hann fram.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð. Meðal annars efnis í blaðinu er: 

 • Fjallað er afkomu og eignir laxeldisfyrirtækisins Arnarlax.
 • Samkvæmt spá greiningaraðila munu tvær og hálf milljónir erlendra ferðamanna koma til landsins á næsta ári.
 • Afgangur af rekstri ríkissjóðs verður 44 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.
 • Samanburður á afkomu helstu bifreiðaskoðunarfyrirtækja Íslands.
 • Kostnaður við sölu stöðugleikaeigna fæst ekki uppgefinn.
 • Umfjöllun um nýjan iPhone X síma sem kynntur var í vikunni. 
 • Erna Gísladóttir, forstjóri og eigandi BL, er í ítarlegu viðtali.
 • Umfjöllun um Suður-kóreskan tílhreinan stallbak. 
 • Rætt er við Gunnar Már Jakobsson, sem hefur stofnað fyrirtækið Notedrops.
 • Elísabet G. Björnsdóttir sem hóf nýlega störf hjá Landsbankanum tekin tali.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um flóttamenn.
 • Óðinn skrifar um eyðileggingu.