*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Fólk 10. september 2017 19:04

Alvöru snúð með alvöru súkkulaði

Margrét Tryggvadóttir hefur verið ráðin í nýtt starf aðstoðarforstjóra hjá Nova.

Ritstjórn
Nýráðinn aðstoðarforstjóri Nova, Margrét Tryggvadóttir, hefur starfað í fyrirtækinu alveg frá stofnun, en þangað fór hún eftir stutta viðdvöl í bankakerfinu. Áður hafði hún verið hjá Tal og Vodafone.
Aðsend mynd

Ég mun bera ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins,“ segir Margrét Tryggvadóttir sem tekið hefur við sem aðstoðarforstjóri fjarskiptafyrirtækisins Nova.  „Fyrirtækið hefur vaxið úr engu upp í að vera með níu milljarða króna veltu og með 140 starfsmenn. Þetta er liður í því að þróa félagið áfram og efla enn frekar stjórnendateymið.“

Margrét hefur starfað lengstan sinn starfsaldur í fjarskiptageiranum, fyrst í þjónustuveri Tals, en færði sig síðan yfir í markaðsmálin og svo var hún vörustjóri þegar fyrirtækið sameinaðist Íslandssíma og úr varð Vodafone. Margrét tók síðan þátt í stofnun Nova og hefur verið með fyrirtækinu frá upphafi.

„Þetta hefur verið gríðarlega skemmtilegur markaður og bransi að starfa í. Ég byrjaði á að stýra markaðsdeildinni hér en frá 2012 hef ég stýrt sölu og þjónustu.“

Margrét er gift Magnúsi Sigurjónssyni, og saman eiga þau tvö börn á aldrinum sex til tíu ára, en utan vinnu segist hún hafa áhuga á öllu sem tengist íþróttum og almennri útiveru. „Hvort sem það er að fara á fjöll eða hjóla,“ segir Margrét. „Við ákváðum að taka íslenskt sumar og ferðast um landið og leika okkur.“

Margrét er alin upp á Ísafirði. „Ég var tvö ár í Menntaskólanum á Ísafirði en eftir að ég kláraði verslunarprófið þar fór ég suður í Verslunarskóla Íslands, þar sem ég kynntist mínum bestu vinum í dag,“ segir Margrét sem sækir mikið vestur í frítíma sínum, eins og þeir sem þar þekkja til vita eru nokkrir hlutir sem er nauðsynlegt að gera í hverri ferð þangað.

„Það er alltaf farið í Tjöruhúsið sem er mikil upplifun með frábærum mat, og svo er alltaf farið í Gamla bakaríið, keypt kókómjólk, mjúka kringlu og svo alvöru snúð með alvöru súkkulaði.“ Margrét fer þó ekki einungis vestur til að borða. „Í síðustu ferð tókum þátt í hlaupahátíðinni á Ísafirði sem er frábær viðburður. Þar fá allir eitthvað við sitt hæfi, krakkarnir hlaupa og við foreldrarnir hjólum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.