*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Innlent 11. ágúst 2017 13:45

Árborg vill ekki kaupa eignir í útleigu

Af um 40 íbúðum sem Íbúðalánasjóður hefur boðið sveitarfélaginu hefur það einungis sýnt áhuga á þeirri einu sem ekki er í útleigu en beinir því til sjóðsins að segja ekki upp leigjendum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Af um það bil 40 íbúðum sem Íbúðalánasjóður hefur boðið sveitarfélaginu Árborg að kaupa af sér hefur sveitarfélagið einungis sýnt áhuga á að kaupa eina þeirra. Segist bæjarráðið vilja vita verð einnar íbúðar sem ekki sé í notkun að því er fram kemur í Fréttablaðinu, en flestar hinar íbúðirnar eru þegar í útleigu.

„Mikill meirihluti eignanna sem boðnar eru hentar ekki sem félagslegt leiguhúsnæði sökum staðsetningar, stærðar, aldurs og/eða viðhaldsþarfar,“ segir í fundargerð ráðsins.

„Bæjarráð beinir því til Íbúða­lánasjóðs að hætta við uppsagnir á húsaleigusamningum, enda er verulegur skortur á íbúðarhúsnæði til leigu í sveitarfélaginu um þessar mundir og ljóst að þeim einstaklingum og fjölskyldum sem leigja af Íbúðalánasjóði yrði erfitt um vik að verða sér úti um annað leiguhúsnæði.“