Í grein sem Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og Margrét Sanders, stjórnarformaður rituðu í Morgunblaðið í dag kemur fram að auglýsingar sem VR hefur birt séu ekki í samræmi við raunveruleikann.

Í auglýsingunum er hin þekkta sjónvarpspersóna Georg Bjarnfreðarsson búinn að opna verslunina Georgskjör, en þar kemur meðal annars fram að hann sé kominn með sjöttu háskólagráðuna eins og sagt var frá á Eftir vinnu síðu Viðskiptablaðsins .

Hann hefur ráðið starfsmann í vinnu og í auglýsingunum er sýnt með gamansömum hætti hvernig hann brýtur ítrekað á réttindum starfsmannsins. Í greininni sem Andrés og Margrét rituðu segja þau að auglýsingarnar sýni handrit að mannlegum harmleik og séu ekki í samræmi við raunveruleikann.

„Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa," segir í greininni.