Ávöxtun á hlutabréfamörkuðum er umtalsvert lakari frá maí og fram til nóvember miðað við hinn hluta ársins. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem kynnt var á Þjóðarspegli Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í gær.

„Þessi sveifla er mjög sterk og skýr á langflestum mörkuðum sem er enn þá í grundvallaratriðum óútskýrð,“ segir Gylfi. „Það hafa ýmsir komið með tilgátur um að það tengist með einhverjum hætti skammdegisþunglyndi en ég fer yfir það í rannsókninni og kemst eiginlega að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Hugsanlega skýri það pínulítið frávik en dugar engan veginn til að skýra þessa sveiflu alveg,“ bendir Gylfi á.

Gylfi segir muninn það mikinn að fjárfestar mættu huga að honum þótt hann sé mismikill eftir löndum. „Munurinn virðist almennt vera það stór að hann skipti máli fyrir fjárfesta. Það virðist vera nokkurra prósentustigamunur á ávöxtun milli þessara helminga ársins og hann sé það mikill að það geti borgað sig að taka tillit til munarins við fjárfestingaákvarð- anir. Jafnvel þannig að fjárfestar veðji á hlutabréf helming ársins og einhvers konar skuldabréf hinn helming ársins,“ segir Gylfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .