*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Innlent 22. september 2017 13:03

Biðja dómsmálaráðherra afsökunar

Eftir að í ljós koma að enginn trúnaðarbrestur var af hálfu dómsmálaráðherra hefur Heimdallur beðist afsökunar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heimdallur félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur ákveðið að draga til baka yfirlýsingu sína frá því 17. september þar sem lýst var vonbrigðum vegna trúnaðarbrests dómsmálaráðherra í starfi.

„Við betri athugun og í ljósi aukinna upplýsinga er ljóst að meintur trúnaðarbrestur átti sér ekki stað. Stjórn Heimdallar biður Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, afsökunar á fljótfærni sinni,“ segir í yfirlýsingu félagsins en eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstaða að ekki hafi verið um trúnaðarbresta ð ræða.

„Þá fagnar stjórn Heimdallar því að endurskoða eigi núverandi lagaumhverfi í tengslum við uppreist æru. Endurskoðun af þessu tagi er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir það að þolendur kynferðisafbrota og aðstandendur þurfi að ganga í gegnum sambærilega reynslu og núverandi lagaumhverfi býður upp á. Stjórn Heimdallar ítrekar stuðning sinn við þolendur kynferðisbrota.“

Hafna ásökunum um léttúð gagnvart kynferðisbrotamálum

Heimdallur er ekki eina félag ungra sjálfstæðismanna sem hafa lýst yfir stuðningi við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í málinu. Eins og alþjóð veit gekk Björt framtíð, og síðar Viðreisn, út úr stjórnarsamstarfinu á þeim grundvelli að um trúnaðarbrest hefði verið að ræða, sem dómsmálaráðherra hefur sagt hafa verið gert án yfirvegunar og ábyrgðar.

Landssamtök Sjálfstæðisfélaga í ungliðahreyfingu flokksins, SUS, sendi frá sér yfirlýsingu svipaðs efnis fyrr í vikunni, en það var áður en umboðsmaður hafði komist að niðurstöðu sinni. „Samband ungra Sjálfstæðismanna (SUS) ber fullt traust til Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, nú sem fyrr, og hafnar ásökunum um að Sjálfstæðisflokkurinn sýni kynferðisafbrotum léttúð,“ segir í tilkynningu sambandsins.

„Dómsmálaráðherra hóf í maí á þessu ári endurskoðun á lögum um uppreist æru með það að markmiði að gera lögin gagnsærri og skapa sátt um þau. Hún hefur einnig, ein ráðherra í sögunni, neitað að skrifa undir uppreist æru einstaklings sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot, þvert á ráðleggingar ráðuneytisins og áratugalanga venju athugasemdalausra afgreiðsluhátta.

SUS fagnar því jafnframt að dómsmálaráðherra gæti fyllstu varkárni við meðferð viðkvæmra upplýsinga. Birting upplýsinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari skv. upplýsingalögum geta varðað refsiábyrgð eins og dæmin sýna.“