Jón Trausti Ólafsson formaður Bílgreinasambandsins segir að þrýst hafi verið á stjórnvöld allt frá því í vetur til að gera þær ráðstafanir sem þeim er heimilt að gera til að draga úr fyrirsjáanlegri hækkun á verði bifreiða, að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá fyrir helgi, mun nýr mengunarmælikvarði Evrópusambandsins, sem taka mun gildi í áföngum hér á landi í gegnum EES samninginn, hækka verð á nýjum bílum um allt að 35%.

Mælikvarðinn mun sýna rauntölur um eldsneytisnotkun og útblástur koldíoxíðs (CO2), en eins og fram kom í fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen til umhverfisráðherra má rekja 4% losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi til útblásturs bifreiða. Þess má geta að 72% koma frá framræstu votlendi.

Danir og Svíar gripu til aðgerða

Þó Jón Trausti segist fagna því sem hann kallar réttlátari mengunarmælikvarði vísar hann í að Danir hafi lækkað vörugjöld og Svíar frestað gildistöku laganna til að bregðast við breytingunum.

„Ef ekkert verður að gert eru líkur á að verð á bílum fyrir utan rafbíla sem ganga 100% fyrir rafmagni, muni hækka um 25 til 35% í tveimur hækkunum 1. september og 1. janúar,“ segir Jón Trausti sem segir stjórnvöld hafa dregið lappirnar þrátt fyrir þrýsting.

„Það hefur ekki skilað sér og allar líkur eru á að ekki verði hægt að koma í veg fyrir 10 til 15% hækkun á innfluttum bifreiðum hinn 1. september.“ Hins vegar segir Jón Trausti að nægur tími sé til að koma í veg fyrir aðra álíka hækkun um áramótin og þá jafnvel draga þessa hækkun til baka.

Jón Trausti óttast um sölu á nýjum bílum en meðalaldur íslenskra bifreiða er 12 ár. „[É]g er hræddur um að sala á nýjum bifreiðum með þróuðustu og sparneytnustu bensín- og dísilvélunum auk tvinnbíla, tengiltvinnbíla og hybrid-bíla muni dragast verulega saman vegna fyrirséðra verðhækkana.“