Þriðjudaginn 9. október verður nafni Blaðsins breytt í 24 stundir. Þetta er hluti af sókn á dagblaðamarkaði sem hófst í sumar og verður nú fram haldið undir nýju nafni og með því að gera efni blaðsins enn aðgengilegra og skemmtilegra. Meðal þeirra breytinga sem lesendur verða varir við á næstunni er að helgarblað 24stunda verður eflt til muna. 24 stundum er dreift á heimili um allt land í 105 þúsund eintökum daglega. Það verður mesta dreifing íslensks dagblaðs, að er fram kemur í fréttatilkynningu.

Nafnið 24stundir undirstrikar ásetning Árvakurs hf. um að skapa blaðinu sérstöðu á markaðnum. Nafnið 24 stundir er fréttalegt og nútímalegt. Það vísar til þess að 24 stundir eru ætíð á vaktinni ? allan sólarhringinn. Það vaktar hagsmuni neytenda, notenda almannaþjónustu og skattgreiðenda og fylgist með menningar- og skemmtanalífinu. 24 stundir mun skera sig rækilega frá keppinautunum, segir í fréttatilkynningunni.

Um miðjan október útgáfa á 64 síðna helgarblaði þar sem áhersla verður lögð á vandaða umfjöllun um innlend og erlend málefni, fróðleik og góða helgarafþreyingu. Í fréttatilkynningu segir að þetta verður öflugt helgarblað, uppfullt af gagnlegum upplýsingum, skemmtilegum viðtölum, fréttum og skemmtiefni. Áhersla verður áfram á áhugaverð viðtöl, stór mál verða krufin til mergjar, myndaalbúm þekkta fólksins skoðuð, auk þess sem boðið verður upp á annað fjölbreytt efni fyrir alla aldurshópa.

24 stundir ætla sér að verða fyrirferðamiklar á blaðamarkaði og verða kynntar með blaðaauglýsingum, sjónvarps- og útvarpsauglýsingum, auglýsingum á strætisvögnum og á netinu. Um er að ræða einhverja umfangsmestu kynningu sem íslenskt blað hefur ráðist í, segir í fréttatilkynningunni.