Á annað hundrað manns sóttu Reykjavíkurfund Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem haldinn var á laugardaginn síðastliðinn og þar samþykkti flokkurinn að leggja áherslu á að borgin tryggði nægilegt framboð af lóðum.

Flokkurinn segir fjölgun íbúða muni auka tekjur borgarinnar og vill flokkurinn breyta aðalskipulagi borgarinnar strax á komandi hausti.Meðal uppbyggingaráforma flokksins er að uppbyggingu verði lokið í Úlfarsárdal, og hafin vinna við skipulagningu byggðar í Geldinganesi. Jafnframt verði byggð nýstárleg byggð í Örfirisey, sem og fjölskylduvænt hverfi verði byggð við Keldur, þar sem nú er tilraunastöð Háskóla Íslands.

Jafnframt vill flokkurinn fella niður innviðagjaldið, fækka borgarfulltrúum og starfshópum í borginni, lækka álögur og minnka jaðarskatta. Flokkurinn vill bæði bæta gatnakerfið og segja upp samningi um framkvæmdastopp á sama tíma og leiðarkerfi Strætó verði eflt og Samgöngumiðstöð við Kringluna verði skoðuð.

Aðrir áherslupunktar flokksins eru styrking heimaþjónustu, sérstakt átak í málefnum barna af erlendum uppruna, og tryggja leikskóla eða dagsforeldrapláss fyrir börn 12 mánaða og eldri. Auk þess að tekið verði á yfirbyggingu borgarinnar, og þar verði byrjað á borgarfulltrúum sem verði aftur fækkað í 15, en þeim mun nú fjölga í 23 eftir komandi kosningar.

Einnig að tengsl íþróttafélaga og tómstundastarf við grunnskóla verði styrkt. Í umhverfismálum nefnir flokkurinn stóraukningu í þrifum á götum og opnum svæðum, fjölgun sorphirðudaga og flokkun á sorpi verði auðvelduð.