BL, og áður B&L, hafði átt í farsælu samstarfi við Renault Trucks um áratuga skeið en áherslubreytingar hjá eigandanum, Volvo Truck Corporation, varð þess valdandi að Brimborg hefur nú á sinni hendi umboð fyrir tvö af stærri merkjunum í flokki stórra atvinnubíla. Við ræddum við Egil Jóhannsson, framkvæmdastjóra Brimborgar, um þessi tímamót.

Ákvörðun tekin fyrir 2 árum

Egill bendir á að Renault Trucks vörubílaframleiðandinn er í eigu Volvo Truck Corporation sem er einn stærsti vörubílaframleiðandi heims. Allnokkur ár eru síðan Volvo Trucks tók yfir Renault Trucks en í kjölfar ákvörðunar Volvo Trucks um endurskipulagningu á sölu og þjónustu við Renault Trucks vörubíla í Evrópu var ákveðið fyrir um tveimur árum að Brimborg tæki við umboðinu 1. febrúar 2015.

Fylla upp í gat í vörulínu Volvo Trucks

„Eins og áður segir er þetta ákvörðun Volvo um að breyta sölu og þjónustunetinu til aukinnar hagræðingar og þjónustu við rekstraraðila vörubíla. Renault Trucks vörubílar fylla upp í ákveðið gat í vörulínu Volvo Trucks sem eru trukkar milli 5-12 tonn. Brimborg er mjög sterkt á atvinnubílamarkaði og var með þriðjung markaðarins á litlum og meðalstórum atvinnubílum undir 5 tonnum þar sem félagið býður Ford og Citroën sendibíla. Á markaði fyrir stóra atvinnubíla yfir 12 tonn er félagið með um þriðjung líka með Volvo vörubílum. Í milliflokki atvinnubíla frá 5-12 tonnum hefur Brimborg ekki getað boðið eins góða flóru bíla en með Renault Trucks rætist úr því,“ segir Egill.

Nánar er fjallað um spjallað við Egil í Atvinnubílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .