Ekki er talið útilokað að verðhjöðnun verði á evrusvæðinu á þessu ári. Fram kemur í uppfærðri verðbólguspá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að búist er við lægri verðbólgu að meðaltali á myntsvæðinu en áður var gert ráð fyrir. Samkvæmt spánni er búist við því að verðbólga verði 0,8% á þessu ári og 1,2% á næsta ári. Fyrri verðbólguspá hljóðaði upp á 1% verðbólgu í ár og 1,5% verðbólgu á næsta ári.

Í verðbólguspánni kemur fram talsverður munur á milli landa. Eins og greint er frá málinu á vef breska dagblaðsins Financial Times þá munu stjórnvöld í Frakklandi lyfta grettistaki í baráttunni gegn hallarekstri. Það mun þó ekki duga til og halli verða meiri en þak ESB hljóðar upp á. Þ.e. halli ESB-ríkja má ekki verða meiri en 3% sem hlutfall af landsframleiðslu. Hallarekstur Frakka verður hins vegar meiri eða á milli 3,5-4%. Frakkar eru hins vegar ekki tossarnir innan evruríkjanna. TIl samanburðar er gert ráð fyrir því að halli á fjárlögum Spánverja verði 5,6% á þessu ári og 6,1% á næsta ári. Ítalir verða á svipuðu róli.

Staðan verður hins vegar áfram verst í Grikklandi. Þar er mesta atvinnuleysið, hallareksturinn mestur og skuldir ríkisins 177,2% sem hlutfall af landsframleiðslu.