Stjórnendur Kaupþings héldu því fram við Seðlabanka Íslands, að ríkisstjórnin vildi lána viðskiptabankanum þrautavaralán.

Seðlabankinn taldi að vilji ríkisstjórnarinnar þyrfti að ráða í málinu. Þess vegna ræddu Davíð Oddsson og Geir Haarde um lánveitinguna í síma, en tilviljun réði því að samtalið var tekið upp.

Þetta kemur fram í Reykjavíkurbréfi Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins, sem kom út í morgun. Orðrétt segir í bréfinu, en annar ritstjóra Morgunblaðsins og líklegur bréfritari er Davíð Oddsson

„En þar sem beðið var um aðstoð í erlendum gjaldeyri vildi S.Í. ekki taka lokaákvörðun í málinu. Stór hluti gjaldeyrisforðans var þannig tilkominn, að íslenska ríkið hafði selt skuldabréf fyrir 1 milljarð evra.

S.Í. hafði varðveitt andvirðið og það hafði tekist svo vel að lánið var sjálfbært og ríkissjóður hafði af því engan kostnað. En þar sem forðinn var þannig til kominn litu bankastjórar S.Í. svo á, að vilji ríkisstjórnarinnar, en ekki bankans, yrði að ráða niðurstöðunni.

Þeir sem báðu um aðstoðina héldu því fram, að ríkisstjórnin vildi að þessi fyrirgreiðsla yrði veitt. Þess vegna fór símtalið við forsætisráðherrann fram. Tilviljun réð því að það símtal var hljóðritað. Þess vegna átti fyrirgreiðslan sér að lokum stað gegn allsherjarveði í banka sem talinn var standa mjög ríflega undir því."

Í bréfinu segir að ólíkt Landsbankanum hafði Kaupþing veð í FIH bankanum fram að bjóða. Reikningar FIH sýndu að bankinn var þrefalt verðmeiri en lánið til Kaupþings, en Seðlabankinn tók veð í öllum hlutum bankans.

„Nú hafa menn séð að reikningar fjölda banka, austan hafs og vestan, blikna fljótt við erfiðleika og það þrátt fyrir að margvíslegir varnaglar séu slegnir og styrkleikaprufur fjármálaeftirlita sýni að viðkomandi banki eigi að þola flest hugsanleg áföll. En FIH bankinn var ekki líklegur til að fara á höfuðið. Allt danska bankakerfið var komið í danska ríkisábyrgð. Enda er FIH bankinn ekki farinn á höfuðið enn.

Árið 2007 hafði FIH verið gerður upp með hagnaði sem nam á þriðja tug milljarða króna. Og jafnvel þegar árið ógurlega, 2008, var gert upp vorið 2009 var hagnaður bankans tæpir 4 milljarðar króna."

Lánveitingin fór fram 6. október 2008. Lánsfjárhæðin var 500 milljónir evra. Fjárhæðin nemur um 68 milljörðum á gengi þess dags.