Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir það kristallast í Al Thani málinu hversu samofið íslenskt samfélag sé. Það sé einfaldlega of lítið og nátengt til að halda uppi jafnmikilvægum málaflokki og dómskerfið sé.

Þetta segir hún í stöðuuppfærslu á Facebook , þar sem hún tengir í frétt Viðskiptablaðsins frá því í morgun um að þrír aðilar í dómstólaráði hafi lýst sig vanhæfa til tilnefningar á nýjum nefndarmanni í endurupptökunefnd í máli Ólafs. Ráðið mun þurfa að tilnefna nýjan nefndarmann í stað Þórdísar Ingadóttur og Sigurðar Tómasar Magnússonar, varamanns hennar, en þau lýstu sig vanhæf til að fjalla um málið eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um .

Ingibjörg segir að fyrir einstaklinga sem ríkið lögsæki séu það grundvallarmannréttindi að dómarar séu hlutlausir og á engan hátt tengdir, hvorki persónulega né faglega, inn í viðkomandi mál. „Í svona litlu samfélagi er mjög erfitt að finna einstaklinga sem kreppan hefur ekki snortið á einhvern hátt.“

Hún segir að innan fjölskyldu og vinahóps séu einhverjir sem hafi tapað fjárfestingum sínum og eitthvað þaðan að verra. Sama fólkið sé í mörgum embættum og allir þekkist vel. Það sé þó misvel en nóg til að menn verði samdauna og sammála þeim sem hæst hafi, sem sé sá reiði.

„Í mínum huga er ljóst að við þurfum einfaldlega að leita út fyrir landsteinana til að finna einstaklinga sem eru hæfir til að dæma í þessum málum,“ segir Ingibjörg að lokum.