Eik fasteignafélag hagnaðist um 963 milljónir á þriðja ársfjórðungi. Ef litið er á sama tímabil í fyrra þá hagnaðist félagið um 1,5 milljarða. Hagnaður fasteignafélagsins fyrir tekjuskatt nam 1,2 milljarða — samanborið við 1,9 milljarða á sama tímabili fyrir ári.

Rekstrartekjur félagsins námu rúmum 1,8 milljarði á þriðja ársfjórðungi, þar af voru leigutekjur 1,4 milljarðar og tekjur vegna Hótels 1919 314 milljónir. Rekstrarkostnaður félagsins var 592 milljónir á tímabilinu. Því var rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir 1,22 milljarðar.

Virðisútleiguhlutfall félagsins í lok ársfjórðungsins 95,1% samanborið við 92,1% á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé félagsins í lok tímabilsins var 25,1 milljarður samanborið við 23,54 milljarða á sama tíma í fyrra. Skuldir félagsins í lok tímabilsins numu tæpum 53,5 milljörðum og hækkuðu frá sama tíma í fyrra, þegar þær voru 46,1 milljarðar.

Fyrstu níu mánuðir ársins

„Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 námu 4.981 m.kr og aukast um 14,0% á milli ára. Þar af voru leigutekjur 4.191 m.kr. og tekjur vegna hótelrekstrar 513 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 3.354 m.kr. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 2.989 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 2.391 m.k.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 76,3% á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 samanborið við 76,6% fyrstu níu mánuði ársins 2015.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam á tímabilinu 1.673 m.kr.,“ segir í fréttatilkynningu frá Eik.

Félagið greiddi 818 milljónir króna til hluthafa þann 25. maí síðastliðinn og stefna að því að greiað 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í arð til hluthafa.