Rekstraraðili Hvalfjarðarganga, Spölur, stefnir að því að afhenda Vegagerðinni göngin sunnudaginn 30. september næstkomandi. Stjórn Spalar hefur tilkynnt hluthöfum félagsins þessa ákvörðun sína en tekur jafnframt fram að tímasetningin sé kynnt með ákveðnum fyrirvara að því er segir á heimasíðu Spalar.

Það er að þeim forsendum gefnum að Ríkisskattstjóri fallist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og í öðru lagi að Samgöngustofa skili fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið tilkynnti stjórn Spalar 7. maí að ríkið myndi ekki yfirtaka félögin sem eiga og reka göngin, líkt og rætt hafði verið um áður í samskiptum Spalar við fjármálaráðuneytið, fyrst á árinu 2009. Slík útfærsla á afhendingu ganganna hefur meðal annars áhrif á reikningshaldslegar afskriftir mannvirkisins.

Í júní 2018 leitaði stjórn Spalar álits Ríkisskattstjóra á hvernig fara skyldi með skattalega afskrift ganganna og hugsanlega skattlagningu Spalar á árinu 2018. Svar hefur ekki borist við erindinu en þess er vænst að viðunandi botn fáist í málið í tæka tíð svo unnt sé að afhenda göngin í lok september.

Spölur mun á næstu mánuðum gera upp við viðskiptavini sína: taka við veglyklum gegn 3.000 króna skilagjaldi, taka við og endurgreiða ónotaða afsláttarmiða og greiða út inneignir á áskriftarreikningum notenda veglykla. Viðskiptavinir hafa frest til 30. nóvember til að skila veglyklum og afsláttarmiðum, en áskriftarsamningar Spalar eru liðlega 20 þúsund og yfir 53 þúsund veglyklar eru í umferð.

Hlutafélagið sem á og rekur Hvalfjarðargöng, Spölur, var stofnað á Akranesi 25. janúar 1991. Framkvæmdir við göngin hófust 30. maí 1996 og þau voru opnuð til umferðar 11. júlí 1998. Í lögfestum samningum var frá upphafi kveðið á um að vegfarendur greiddu fyrir göngin með veggjöldum og að Spölur myndi afhenda ríkinu mannvirkið skuldlaust.

Spölur hafði þann tilgang einan að undirbúa og sjá um framkvæmdir í Hvalfirði og eiga og reka Hvalfjarðargöng. Félaginu verður slitið 2019 og það heyrir þá farsælli sögu til segir í tilkynningu félagsins.

Hluthafar Spalar eru 45 og þeirra stærstir eru:

  • Faxaflóahafnir 23,5%
  • Ríkissjóður Íslands 17,6%
  • Elkem Ísland 14,7%
  • Hvalfjarðarsveit 11,6%
  • Vegagerðin 11,6%
  • Akraneskaupstaður 8,7%.